Sjúkraliðar í dagvinnu munu þó áfram leggja niður vinnu en ótímabundið verkfall þeirra hófst 15. október. Allir félagsmenn SFR og SLFÍ hjá Landspítala, Tollstjóra, Ríkisskattstjóra og sýslumönnum hafa verið í ótímabundnu verkfalli, í þeim hópi eru læknaritarar til að mynda, skrifstofustarfsfólk, öryggisverðir, flutningsmenn og fólk í símavörslu.
Félögin funda með samninganefnd ríkisins nú klukkan tíu. Fundað var bróðurpart dags í gær, frá tvö síðdegis til tíu um kvöld.

Grafalvarlegt ástand á Landspítala
Takist ekki að semja mun næsta tímabundna verkfall skella á fimmtudaginn 29. október og það mun standa yfir í tvo sólarhringa.
Ótímabundin verkföll hafa þegar haft mikil áhrif en þau hafa eins og áður sagði staðið yfir síðan 15. október. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á mánudag að ástandið væri grafalvarlegt og að erfiðlega gengi að koma sjúklingum af bráðamóttöku yfir á aðrar deildir.
Félagsmenn SFR, SLFÍ og LL sem starfa hjá ríkisstofnunum munu alfarið leggja niðurstörf og hefja ótímabundið verkfall þann 16. nóvember ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. Ljóst er að gríðarleg röskun yrði ef kemur til ótímabundins verkfalls; ellefu hundruð sjúkraliðar myndu áfram leggja niður störf, kennsla myndi lamast við Háskóla Íslands, sýningar hjá Þjóðleikhúsinu falla niður og verkfall hefði áhrif á starfsemi Samgöngustofu, Vinnumálastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Íbúðalánasjóð og Þjóðskrá Íslands. Þetta eru aðeins dæmi en verkfallið hefur áhrif á 158 stofnanir víðsvegar um landið.
Uppfært kl. 10.17: Í fyrri frétt kom ekki nægilega skýrt fram að sjúkraliðar í dagvinnu og aðrir starfsmenn LSH, Tollstjóra, Ríkisskattstjóra og hjá sýslumönnum hafa verið í verkfalli síðan 15. október með tilheyrandi röskun á daglegri starfsemi stofnana. Bætt hefur verið úr því.