Nýr kjarasamningur milli SFR stéttarfélags í almannaþjónustu og Reykjavíkurborgar var undirritaður fyrr í dag í húsnæði sáttasemjara.
Samningurinn gildir frá 1. maí 2015 til lok mars 2019 og er á svipuðum nótum og kjarasamningur SFR við ríkið sem samþykktur var á dögunum.
„Ríkissamingurinn sem við gerðum á sínum tíma gaf bara tóninn og hann er uppistaðan í öllum núverandi kjarasamningum. Þessi samningur er á mjög svipuðum á nótum. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Efling voru búin að semja við borgina þannig að við drifum í því að semja við borgina,“ sagði Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í samtali við Vísi.
Næstu daga verður innihald samningsins kynnt fyrir félagsmönnum og að því loknu fer hann í atkvæðagreiðslu.

