"Ég hef alltaf verið áhugasamur um matargerð. Við erum fjórir bræðurnir og því voru fimm karlmenn á heimilinu á móti mömmu sem hafði lítinn áhuga á matreiðslu. Við strákarnir sáum mikið til um eldamennskuna og sér í lagi ég,“ segir Martin en meðan önnur börn lásu kvöldsögur las hann matreiðslubækur.

Martin þykir skemmtilegast að elda ítalskan mat en brauðbakstur er einnig mjög fyrirferðarmikill. „Ég baka brauð af öllu tagi, tvisvar til þrisvar í viku og hef gert í tuttugu ár.“
Mismunandi jólahefðir
Martin segir þýskar jólahefðir töluvert frábrugðnar þeim íslensku. „Matur skiptir mun minna máli í Þýskalandi um jólin. Heima hjá mér var til dæmis kartöflusalat og pylsur. Þá er lögð meiri áhersla á helgihald, samverustundir, að hittast og syngja eða fara á tónleika,“ segir Martin sem vill gjarnan blanda saman íslenskum og þýskum siðum. „Mér finnst líka frábært að fara í fín föt og vera með sérstakan mat á jólunum, vera með hangikjöt, appelsín, jólaöl og laufabrauð.“
Martin syngur með Mótettukór Hallgrímskirkju og er því ávallt upptekinn við messusöng klukkan sex á aðfangadag og öll fjölskyldan með honum. Þess vegna hefur orðið að hefð að borða raclette á aðfangadag. „Þá höfum við allt hráefnið tilbúið í skálum og getum sest beint til borðs þegar við komum úr messunni.“
Ný útfærsla á klassískum ís
Í eftirrétt hefur iðulega verið boðið upp á toblerone-ís en dálítil breyting verður á í ár. „Ég prófaði að útbúa þýskar möndlu-hunangskökur og notaði þær í ísinn. Það kom mjög vel út og ísinn fékk smá kanilkeim. Með þessu útbjó ég plómusósu en sýran í sósunni passar mjög vel við sætuna í ísnum.“ Þessi tilraun mæltist svo vel fyrir hjá fjölskyldunni að ákveðið var að hafa ísinn í eftirrétt á aðfangadag.

60 g sykur
60 g púðursykur
100 g smjör
100 ml rjómi
3 msk. hunang
1/2 tsk. kanill
1/2 tsk. vanilludropar
200 g heflaðar möndlur (má líka blanda með heslihnetum)
150 g rjómasúkkulaði, brætt
Hitið allt nema möndlurnar að suðu í stórum potti og látið krauma í 5 mínútur. Bætið svo möndlunum við og látið sjóða í 5 mínútur til viðbótar. Hrærið í af og til.
Dreifið möndlumassanum jafnt á bökunarpappír á ofnskúffu og bakið við 200°C neðarlega í ofninum í um 10 mínútur eða þar til röndin byrjar að vera brún. Hvolfið, takið bökunarpappírinn af og látið kólna aðeins áður en súkkulaðinu er dreift jafn yfir. Þegar platan er orðin köld má skera hana í bita, t.d. þríhyrninga eða tígla. Röndina er gott að nota í ísinn.
Jólaís með möndlu-hunangskexi
6 eggjarauður
1 dl púðursykur
4 msk. hunang
1 tsk. vanilludropar
1/2 tsk. kanill
1/2 l rjómi
50 g rjómasúkkulaði
1 bolli möndlu-hunangskex
Hitið hunangið upp í um 70°C og bræðið súkkulaðið. Þeytið saman púðursykur og eggjarauður ásamt vanilludropum og kanil, hellið hunanginu saman við í mjórri bunu og þeytið vel á meðan þar til blandan er létt og ljós. Léttþeytið rjómann. Blandið fyrst súkkulaðinu, svo rjómanum varlega en hratt saman við eggjarauðublönduna. Brytjið kexið og blandið varlega út í. Setjið í skál og frystið (gott er að hafa skálina ískalda, og hræra svo á hálftíma fresti 5 sinnum; þá verður ísinn mýkri en það er ekki nauðsynlegt).
Plómusósa
6 plómur
3 msk. hrásykur
1/2 kanilstöng
1 negulnagli
1 kardimommufræ
3 matskeiðar púrtvín (það má líka nota Ribena)
1 appelsínusneið og safi úr einni appelsínu
Sjóðið allt saman í u. þ. b. 7 mín.