
Mesta aukningin hérlendis undanfarið hefur verið í ábendingum um vinnumansal. Um skipulagða glæpastarfssemi er að ræða þar sem stórir glæpahópar standa oft að baki kaupum og sölum á manneskjum.
Árið 2009 var dæmt í fyrsta og eina skipti í mansalsmáli hérlendis. Ákært hefur verið í nokkrum málum þar sem mansal kemur við sögu en sýknað hefur verið í ákærum um mansalsþáttinn.
Snorri segir um að ræða flókin mál þar sem oft getur reynst erfitt að sanna hvort um mansal sé að ræða. Einnig vegna þess að oft getur reynst erfitt að fá fórnarlömbin til samstarfs. Þau eru oft beitt mikilli kúgun og eru hrædd við að segja frá. Það reynist líka erfitt að hafa uppi á fórnarlömbum mansals því þeir sem fyrir því standa passa vel upp á einangrun þeirra.


Eftir að mansalsmálið kom upp árið 2009 var farið að skoða mansalsmál með öðrum augum. „Þegar við horfum til dæmis til starfsmannaleiganna sem voru mikið hér í góðærinu þá hefðum við eflaust skoðað það á allt annan hátt ef við hefðum á þeim tíma haft þá vitneskju sem við höfum núna um mansal.“
Mansalsmál eru flókin viðureignar og geta tengst ýmsum kimum samfélagsins. Nýleg mál sem lögreglan hefur verið að skoða hafa til dæmis tengst því að fólk smygli fíkniefnum til landsins og sé síðan nýtt í það að stunda vændi eða vinnumansal eftir smyglið. „Við höfum kallað það margnýtingu á manneskju sem vöru. Það er eitthvað sem við erum nýfarin að sjá og er í rauninni dapurt. Þarna eru tveir stærstu brotaflokkarnir farnir að sameinast undir einn hatt.“

Snorri segir mikilvægt að fræða fólk um einkenni mansals og opna augu almennings fyrir því að það eigi sér stað hérlendis. Sjálfur sótti hann fræðslu á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, og hefur verið að fræða víða um þessi mál. „Við höfum verið að stíla inn á það fólk sem gæti á einhverjum tímapunkti átt í samskiptum við hugsanleg fórnarlömb. Lögreglumenn, útlendingastofnun, Rauða krossinn og þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar svo eitthvað sé nefnt. Við höfum líka verið að tala við stéttarfélögin og starfsmenn lögreglu, fræða þá sömuleiðis. Þetta vandamál hefur lengi verið til staðar en við verðum vör við það núna af því við þekkjum einkenni þess og horfum öðruvísi á þessi mál.“