Hljóta að vera kaup aldarinnar
„Í lok árs 2014 seldi Landsbankinn hlut í Borgun fyrir luyktum dyrum og án þess að samkeppni væri um þann eignarhlut. Kaupverðir vakti undrun og sérstaklega þegar í ljós kom síðar að hraustleg arðgreiðsla kom úr fyrirtækinu árið 2015 og berast nú fréttir af því að hagnaður muni verða sem milljörðum skiptir vegna yfirtöku Vista International á Evrópuhluta Visa,“ sagði Árni Páll á þingi í dag.

Kallaði hann eftir því að málið væri tekið til rannsóknar hjá eftirlitsaðilum. „Fjármálaeftirlitið þarf að láta þetta til sín taka og ef á þarf að taka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.“
Mikilvægt að fá á hreint
Árni Páll sagði sérstaklega mikilvægt að fá þessi mál á hreint nú þegar fyrir liggur að ríkið ætli að selja ríkisbanka. „Þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn hafa skelfilega sögu af því að koma slíkum eignum í hendur aðila á markaði,“ sagði hann.
„Og nú liggur fyrir þinginu frumvarp um að fela eignarhaldsfélagi Seðlabankans sölu á um 60 milljarða eignum og í því er gert ráð fyrir bæði að stjórn félagsins njóti ábyrgðarleysis í gerðum sínum og að einstakir starfsmenn geti tekið ákvarðanir um sölu eigna allt að einum milljarði,“ sagði hann.
„Er ekki ástæða til þess að Alþingi láti þetta mál nú til sín taka af alvöru? Marki alvöru leikreglur að þessu leyti og krefji landsbankann um reikningsskil þeirrar fáránlegu ákvörðunar um sölu Borgunar í leyni árið 2014.“