Hér að neðan má sjá myndir úr sjöttu þáttaröðinni sem mögulega gefa vísbendingar um söguþráð sjöttu seríu.
Síðasti séns.
Síðast þegar við sáum Sönsu Stark, sem leikin er af Sophie Turner, stökk hún af veggjum Winterfell með Theon Greyjoy, sem er jafnvel betur þekktur sem Reek. Óhætt er að segja að hún hafi átt erfitt í fimmtu þáttaröð Game of Thrones, eftir að hafa gifst Ramsay Bolton í æskuheimili sínu í Winterfell, höfuðborg norðursins.
Þar áður hafði hún varið miklum tíma í haldi Joffrey Baratheon sem kom mjög illa fram við hana.
Ramsay hélt henni nauðugri í herbergi sínu og nauðgaði henni ítrekað. Þar á meðal í einu atriði um brúðkaupsnótt þeirra sem olli miklu fjaðrafoki. Jafnvel mætti segja að framleiðendum þáttanna hljóti að vera illa við karakterinn.
Í síðasta þætti fimmtu þáttaraðar fékk Sansa þó nóg og reyndi að flýja með áðurnefndum afleiðingum.
Framleiðendur þáttanna, HBO, birtu nýverið myndir af helstu söguhetjum sjöttu þáttaraðar á vef sínum. Þar má sjá tvær myndir af Sönsu sem hafa valdið töluverðum usla í fjölmiðlum ytra og á spjallborðum á netinu síðustu daga.
Sjá einnig: Sjáðu glænýjar myndir úr nýjustu seríu Game of Thrones
Á myndunum er Sansa skítug og illa leikin og þar að auki hafa margir bent á að hún virðist vera ólétt. Sé svo þá er um barn Ramsey Bolton að ræða. Það væri enn eitt skiptið sem að höfundar bókanna og þáttanna senda Sönsu fingurinn.
Á annarri myndinni má þó segja að hendur hennar myndi dæld á fötum hennar, en svo er ekki á þeirri seinni. Þó gætu verið margar ástæður fyrir þess að hún líti út fyrir að vera með smá bumbu. Dæmi hver fyrir sig. Myndirnar má sjá hér að neðan.
Sjötta þáttaröð hefst þann 24. apríl og verða þeir sýndir á Stöð 2 á sama tíma og í Bandaríkjunum.

