Tveimur nýjum viðvörunarskiltum verður komið upp í Reynisfjöru á morgun, fimmtudag, en eins og greint hefur verið frá lauk vakt lögreglunnar á svæðinu í dag en vaktinni var komið á í kjölfar banaslyss sem varð í fjörunni fyrir tveimur vikum.
Unnin var öryggisúttekt af verkfræðistofunni EFLU í samvinnu við lögregluna á Suðurlandi og heimamenn í Reynishverfi en að sögn Böðvars Tómassonar, fagstjóra öryggismála hjá EFLU, var fyrst farið í að vinna að bráðaaðgerðum á svæðinu.
„Þær felast í að setja upp þessi tvö nýju skilti, bæði við gönguleiðina í fjöruna og þar sem menn keyra að bílastæðinu. Þetta miðar að því að koma betri upplýsingum á framfæri við ferðamennina en nýja skiltið við gönguleiðina verður til dæmis á öðrum stað en það gamla, það er fjörumegin og mun snúa þannig að það sé meira áberandi en verið hefur,“ segir Böðvar í samtali við Vísi.
Keðjur settar upp
Fyrir nýju skiltin hannaði EFLA nýtt varnaðarmerki vegna öldugangs sem byggir á alþjóðlegum stöðlum. Þá er jafnframt kínverskt tákn á fyrir hættu á nýju skiltunum sem hefur verið áður á skiltum í Reynisfjöru en ferðamaður sem fórst í fjörunni í byrjun mánaðarins var einmitt frá Kína.
Auk þessa verða á næstu dögum settar upp keðjur og merkingar til beina ferðamönnum rétta leið inn á svæðið þannig að allir muni fara sömu leið að fjörunni. Á vormánuðum munu verða svo sett upp fleiri skilti sem munu meðal annars skýra nánar út öldulagið í Reynisfjöru með skýringarmynd og ítarlegum upplýsingum.
„Við höfum verið að vinna svolitla grunnvinnu þarna í Reynisfjöru varðandi hvernig svona skilti geta verið og vonumst til að þessi vinna geti nýst á öðrum ferðamannastöðum og verið leiðbeinandi fyrir önnur viðvörunarskilti,“ segir Böðvar.
