Um helgina var haldinn aðalfundur Samtakanna ´78 en það mál sem vakti mesta athygli var aðildarumsókn BDSM-samtakanna. Kosið var á laugardaginn og féllu atkvæði þannig að 47 greiddu atkvæði með og 40 á móti. Félagar skiptast þannig algerlega í tvö horn. Þeir sem eru á móti því að BDSM-samtökin séu tekin inní Samtökin ´78 er sú að þeir fá ekki séð hvernig þetta tvennt tengist en Samtökin '78 eru hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi. Markmið félagsins er að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, asexual, pankynhneigðir, intersex fólk, trans fólk og annað hinsegin fólk verði sýnilegt og viðurkennt og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi.
Samtökin á villigötum?
Málið hefur verið rætt víða á samfélagsmiðlum, af nokkrum hita og sitt sýnist hverjum. Margir innan Samtakanna ´78 eru afar ósáttir við það hvernig mál hafa þróast. Kristín Sævarsdóttir er ein þeirra sem hefur verið virk innan samtakanna í gegnum tíðina. Hún ritar á Facebook-síðu sína í gær.

Ýmsir taka í sama streng. Þar segir meðal annars í athugasemdum: „BDSM samtökin skilgreina sig sjálf sem iðkendur eins og hver önnur íþróttafélög. Tengingin er engin. Eru iðkendur BDSM ekki fyrst og fremst að hugsa um viðurkenningu samfélagsins á iðkun sinni og finnst tilvalið að nýta Samtökin 78 til að styðja við sig þar vegna viðurkenningarinnar sem samtökin hafa unnið fyrir fyrir sitt fólk. Að þannig tengi bdsm iðkendur sig með hinsegin fólki. Að mínu mati algjörar villigötur.“
Vísir hefur séð ýmsa lýsa því yfir að þeir ætli að segja sig úr Samtökunum, einmitt á þessum forsendum.
„Damned if you do, damned if you don´t“
Hilmar Hildar Magnúsarson er formaður samtakanna og hann ritaði pistil á síðu sína í gærkvöldi og þar fer ekkert á milli mála að málið hefur tekið á:

Yfirlýsingar að vænta
Hilmar segir að það hafi nefnilega verið talsverður þrýstingur á stjórn úr báðum áttum: „Sem kaus að gefa ekki út neina línu, heldur upplýsa sem best um málin og leggja þau svo í dóm æðstu stofnunar félagsins, aðalfundar. Félaganna sjálfra. Á endanum verður maður svo persónulega að standa með hjarta sínu og samvisku.“
Hilmar segist muni tjá sig meira um málið á næstunni og er yfirlýsingar stjórnar að vænta í dag. „Ég get þó sagt núna að fólk hefur ekkert að óttast. Samtökin eru enn þau sömu. Það er ekkert breytt. Fræðslan er ekki breytt. Ráðgjöfin. Ungliðastarfið. Þetta er allt jafn frábært og faglegt og verið hefur - og undir sömu formerkjum. Það sem hefur breyst er að lítið samfélag fólks hefur leitað til okkar. Og fengið skjól. Annað ekki.“