Bein útsending verður frá blaðamannafundi Höllu Tómasdóttur hér á Vísi en fundurinn hefst klukkan 15. Frá því var greint í Fréttablaðinu í morgun að Halla ætli að bjóða sig fram til forseta.
Í desemberbyrjun var stofnuð síða á Facebook þar sem skorað var á Höllu að bjóða sig fram. Hún sagðist þá djúpt snortin, en ætlaði að gefa sér tíma til að hugsa málið og ræða það við sína nánustu áður en hún segði af eða á með framboð.
Undanfarin misseri hefur Halla mest starfað erlendis, meðal annars sem stofnandi Sisters Capital.
Hér fyrir neðan má sjá upptöku af blaðamannafundi Höllu en spóla þarf áfram um klukkustund að upphafi hans.
Fram kemur á stuðningssíðunni við framboð hennar að hún hafi komið að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, leitt verkefnið Auður í krafti kvenna, en einnig gegndi hún starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands 2006 til 2007 áður en hún lét þar af störfum til að stofna fjárfestingarsjóðinn Auði Capital.
Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband sem Halla sendi frá sér í dag þar sem farið er yfir feril hennar.