Alls voru áttatíu tryllitæki flutt hingað til lands í tengslum við kvikmyndina en hægt verður að sjá nokkra af þeim svakalegustu sem notaðir eru við tökurnar fyrir utan Korputorg milli klukkan 12 og 14 í dag.
James Phillips, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins FF8, segist í samtali við Vísi hafa fundið fyrir miklum áhuga landsmanna á bílunum og að svona bílasýningar séu hluti af framleiðsluferli Fast and the Furious myndanna.
Sjá einnig:Leikstjóri Fast 8 birtir myndir af tökustað

Hann segir að fólk á Íslandi sé óvenju áhugasamt um bílana og fjölmargir hafa verið að koma og reyna að mynda á tökustað. Hann vill ekki gefa upp hvaða bílar verða á staðnum í dag en lofar augnakonfekti. Seinnipartinn munu flutningabílar síðan flytja sýningabílana upp á Skaga þar sem tökur munu brátt hefjast.
Sjá einnig: Fast 8 verður tekin upp á Akranesi

Síðasta myndin í flokknum, sem heitir Furious 7, er sjötta tekjuhæsta mynd allra tíma með tekjur upp á 1.515 milljónir dollara, jafnvirði 202 milljarða íslenskra króna, í miðasölu.
Sjá einnig:Vin Diesel-bollur til sölu á Skaganum
Hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem tekið var upp á Mývatni fyrr í þessum mánuði.
Hefur þú náð myndum af tryllitækjunum úr Fast 8 á leið um landið? Sendu okkur þá endilega línu á ritstjorn@visir.is.
Uppfært 2. apríl: Þessi frétt var aprílgabb Vísis.