
„Reyndar hef ég óskað eftir því, ef það er tækifæri til þess að skoða þessi gögn, Panamaskjölin, hvort að slíkt sé. Það er mjög mikilvægt að fá það fram," segir Gylfi sem kveðst hafa sett þessa ósk fram við fyrirtækið Reykjavík Media sem hefur gögnin í sínum höndum og vann umfjöllunina sem flutt var í Kastljósi á sunnudag.
Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður hjá Reykjavik Media, segir fjölmargar beiðnir um upplýsingar úr Panama-skjölunum hafa borist til Reykjavik Media.
"Við höfum fengið gríðarlega mikið af fyrirspurnum hvort við getum flett upp hinu og þess en við bara getum ekki gert það, megum það ekki samkvæmt samkomulagi við ICIJ [Alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna] sem er með forræði yfir gögnunum," útskýrir Aðalsteinn.
Fréttablaðið óskaði í gær eftir því við aðstoðarmenn forsætisráðherra og upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar að ráðherrann upplýsti um hvaða verkalýðsfélög hefðu tengsl við aflandsfélög og um hvaða verkalýðsfélög og aflandsfélög væri að ræða og hver tengslin séu. Svar barst ekki en af orðum Sigmundar í umræðum á Alþingi í gær mátti ráða að hann hafi í raun jafnvel átt við lífeyrissjóði þegar hann nefndi verkalýðsfélög.

Forseti ASÍ segist aðspurður ekki enn að minnsta kosti hafa rætt fyrrnefnda fullyrðingu forsætisráðherra við fulltrúa annarra verkalýðsfélaga og - samtaka. Hins vegar hafi hann rætt þetta við tvo aðra forseta ASÍ og þeir kannist ekki við þá mynd sem Sigmundur hafi dregið upp.
„Forsætisráðherra sagði þetta. Hvað hann hefur fyrir sér í því veit ég ekki. Það sem mér dettur helst í hug er að ástæðan til að nefna þetta sé bara að sleppa héra," segir Gylfi og á þá við að forsætisráðherra hafi þá verið að afvegleiða umræðuna. „En gott og vel, hann verður að standa fyrir þessu.“
Aðalsteinn kveðst ekki geta svarað því hvort Reykjavik Media hafi rekist á einhver íslensk verkalýðsfélög í Panama-skjölunum. „Ég get ekki sagt það, því miður, að minnsta kosti ekki á þessum tímapunkti.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl.