Mark Higgins á hraðametið í hinni árlegu Isle of Man TT´s Snaefell Mountain Course-keppni. Það setti hann árið 2014 og fór þessa 60,6 km löngu keppnisleið á 19 mínútum og 15,9 sekúndum. Meðalhraði hans var því yfir 180 km/klst og metið setti hann á lítillega breyttum Subaru Impreza WRX STI bíl.
Nú ætlar Mark Higgins að bæta þetta met í keppninni í ár og búið er að smíða bílinn sem hann mun keppa á. Þessi breytti Subaru Impreza bíll er sagður umtalsvert sneggri en sá sem hann ók árið 2014. Þótt ótrúlegt megi virðast var bíllinn sem Higgins ók þá að mestu óbreyttur Subaru Impreza WRX STI bíll, en sá nýi er mikið breyttur þó svo Subaru hafi ekki látið uppi smáatriði um bílinn, eins og hestaflatölu hans.
Það verður að bíða uns bíllinn verður formlega frumsýndur. Isle of Man keppnin í ár verður haldin 28. maí til 10. júní og þar sem það er enginn eiginlegur bílaflokkur í keppninni, heldur aðallega keppt á mótorhjólum, þá er þessi tilraun Higgins mest til skemmtunar og metatlögu. Isle of Man eyjan liggur á milli Bretlands og Írlands. Spennandi verður að sjá í sumar hvort Higgins mun ná að fara brautina á undir 19 mínútum.
Í myndskeiðinu að ofan má sjá Mark Higgins slá hraðametið árið 2014.
Bílar