Þetta stærsta sjófæra víkingaskip veraldar fékk höfðinglegar mótttökur þegar það kom til Reykjavíkur í síðasta mánuði eftir sautján daga ferðalag frá Noregi, en tilgangur leiðangursins er að minnast einhvers mesta siglingaafreks norrænna manna. Eftir vikudvöl á Íslandi hélt skipið til Grænlands, til Qaqortoq, stærsta bæjar Suður-Grænlands.
Skipið var þar með komið í Eystribyggð, en þar var Brattahlíð, bær feðganna Eiríks rauða og Leifs Eiríkssonar, og þéttasta byggð norrænna manna til forna. Í Eystribyggð eru einnig rústir Hvalseyjarkirkju en þaðan höfðu menn síðast spurnir af norrænu þjóðinni á Grænlandi árið 1408, í bréfi um brúðkaup íslenskra hjóna.
Og svo skemmtilega vildi til að par úr áhöfninni nýtti tækifærið og fékk skipstjórann Björn Ahlander til að gefa sig saman í þessari sömu kirkju. Hvarf norrænu þjóðarinnar á Grænlandi eftir þetta brúðkaup fyrir 600 árum er ein dularfyllsta ráðgáta mannkynssögunnar.

Þar eru einu fornminjar sem fundist hafa í Norður-Ameríku sem staðfest hefur verið með óyggjandi hætti að eru eftir veru norrænna manna í kringum árið 1000. Staðurinn er talinn hafa verið bækistöð Leifs Eiríkssonar og félaga í skoðunarferðum þeirra um land það sem þeir kölluðu Vínland.
Útilokað þykir að þar hafi vínviður vaxið á tímum norrænu víkinganna en jurtaleifar sem þar fundust við fornleifauppgröft þykja sterk vísbending um að Leifur og hans menn fóru mun sunnar og á slóðir þar sem vínviður gat vaxið.
Hvar Vínland var er hins vegar spurning sem menn menn leita enn svara við. Drekanum Haraldi hárfagra er einmitt ætlað að sigla á líklega staði og er skipið þessa stundina á Saint Lawrence-flóa á leið til Quebec-borgar. Þaðan fer það til Toronto en það áætlar svo að koma inn til New York-borgar í september.
Fylgjast má með ferð skipsins á heimasíðu leiðangursins.