Tónlistarhátíðin All tomorrow‘s parties sem halda átti hér á landi í fjórða skiptið í byrjun næsta mánaðar hefur verið aflýst. Ekki nóg með það heldur hefur fyrirtækið sem stendur fyrir slíkum hátíðum víðs vegar um heim tilkynnt á Facebook síðu sinni að það sé að leggja niður starfsemi sína.
Hátíðin átti að fara fram í Ásbrú sem er gamla herstöðva hverfið við Reykjanesbæ. Þar áttu að koma fram í ár CocoRosie, John Carpenter, Claudio Simonetti‘s Goblin, Dirty Three, Les Savy Fav, Tortoise, Omar Souleyman og fleiri.
Fyrirtækið ATP hefur átt við töluverða fjárhagserfiðleika að stríða upp á síðkastið og margar sveitir höfðu aflýst framkomu sinni þar eftir að ekki var staðið við samninga um fyrirframgreiðslu. Þar á meðal voru íslenska sveitin Múm og Fabio Frizzi sem tilkynntu á síðum sínum að þau hefðu aflýst framkomu sinni.
