Myndband sem sýnir poppstjörnuna Justin Bieber í slagsmálum fer nú sem eldur í sinu um internetið. Atvikið átti sér stað á hóteli í Cleveland í gærkvöldi þar sem Bieberinn hélt eftirpartý að loknum þriðja úrslitaleik körfuboltaliðanna Warriors og Cavaliers.
Ekki er vitað um hvað rifrildið snérist en á myndbandinu má sjá Justin Bieber kýla mun stærri mann sem heldur fastataki í hettupeysu hans. Talað er um að Bieber eigi að hafa kallað manninn illu nafni sem reitti manninn, sem var víst aðdáandi hans, til reiði.
Maðurinn ræðst að honum á móti með þeim afleiðingum að poppstjarnan fellur í jörðina.
Þá má heyra piltinn sem er að taka upp atvikið á símann sinn segja; „ég er að fara komast á TMZ“. Sú spá reyndist rétt því það var fréttastofa TMZ sem greindi frá.
Ætli það sé núna orðið of seint að segja; "Sorrí"?
