Ungir knattspyrnumenn hittu hetjurnar sínar í landsliðinu á förnum vegi og foreldrarnir gátu nýtt atkvæðarétt sinn í forsetakosningunum þökk sé „Bjargvættinum“ frá Vestmannaeyjum.

Með í för eru synirnir Arnaldur Ásgeir og Margeir Orri, báðir miklir Þróttarar, að ógleymdum Hreiðari sex er rétt orðinn sex mánaða en var ekkert nema brosið í steikjandi hitanum í Annecy þegar blaðamaður hitti á fjölskylduna.
Fimmmenningarnir tóku lestina frá Lyon til Annecy í gærmorgun og skelltu sér í göngutúr niðri við vatnið í Annecy. Þar urðu strákarnir ungu stjörnustjarfir þegar þeir mættu engum öðrum en Eiði Smára Guðjohnsen og fleirum úr íslenska landsliðinu. Þeir voru á leiðinni í hjólatúr niðri við vatn en mjög heitt var í veðri í gær og hiti um og yfir 30 gráður.

Arnaldur og Margeir sáu okkar menn gera jafntefli í dramatískum leikjum bæði í Saint-Étienne og Marseille en það var allt annað þegar augun mættust. Stór stund.
Blaðamaður hitti svo á fjölskylduna um kvöldmatarleytið þegar hún var mætt á hótelið þar sem íslensku blaðamennirnir dvelja í Annecy. Þar hafði Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Genf, komið upp utanfundarkjörstað þar sem fjölmiðlamenn gátu kosið og nýttu þau Einar og Olga tækifærið og gengu til kosninga.

Á meðan foreldrarnir kusu lá Hreiðar sex mánaða í kerrunni sinni og brosti út að eyrum. Engin mannafæla þar heldur sannkallaður gleðigjafi.
Eftir að hafa kosið hélt svo fjölskyldan upp í strætó niður á lestarstöð þaðan sem haldið var aftur til Lyon þar sem systir Einars býr með fjölskyldu sinni. Framundan er annað stórmót í knattspyrnu, heima á Íslandi, en Arnaldur Ásgeir er að fara að keppa með 5. flokki Þróttar á N1 mótinu. Þá var Margeir Orri í eldlínunni með 7. flokki Þróttar á Norðurálsmótinu á Akranesi á dögunum. Skammt stórra móta á milli.