Á meðal gesta voru ráðherrar, þingmenn, borgarstjóri, biskup, forseti Hæstaréttar og fyrrverandi forsetarnir Ólafur Ragnar Grímsson og Vigdís Finnbogadóttir. Þá voru allir formenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi viðstaddir fyrir utan Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins.

Eftir formlega athöfn skrifaði Guðni undir kjörbréf sem Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, rétti honum. Því næst hélt hann út á svalir Alþingishússins og heilsaði viðstöddum. Að því loknu flutti hann innsetningarræðu sína í þingsal.
Guðni stiklaði á stóru í ræðu sinni og sagði meðal annars að sér væri efst í huga þakklæti fyrir það traust sem honum hefði verið sýnt að taka við embættinu.

Guðni sagði að Ísland væri gott og friðsælt land og þar nytum við góðs af því sem eldri kynslóðir hefðu gert. Hins vegar mætti margt fara betur. Fólk ætti ekki að líða skort, allir ættu að eiga aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og enn væri ekki í land komið í jafnréttisbaráttunni.
„Mér stendur nærri að nefna menntakerfið. Innan þess eiga allir að geta fundið sér farveg og nám við hæfi án þess að fjárhagur hamli för,“ sagði Guðni.

Að athöfninni lokinni bauð Guðni fjölda gesta til veislu á Bessastöðum, nýju heimili sínu. Starfsmaður forsetaembættisins sagði í samtali við Fréttablaðið að um 160 gestum hafi verið boðið, þó sé óvíst hversu margir hafi mætt. Á meðal gesta var fjölskylda Guðna sem og sjálfboðaliðar sem aðstoðuðu við framboð hans.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
