Íþróttaundrið Tim Tebow hóf í dag æfingar hjá hafnaboltaliði NY Mets en hann gerði sér lítið fyrir og skipti um íþrótt á dögunum.
Tebow varð einn þekktasti íþróttamaður heims er hann framkallaði hvert kraftaverkið á fætur öðru sem leikstjórnandi Denver Broncos í NFL-deildinni.
NFL-ferillinn fékk þó ekki það flug sem menn áttu von á og hann hefur ekki fengið vinnu í deildinni síðustu ár.
Hvað gera menn þá? Jú, þeir skipta bara um íþrótt. Ef þú ert Tim Tebow þá getur þú bara boðað menn á æfingu til þess að sýna hvað þú ert góður í hafnabolta. Það gerði Tebow og þeir komu allir frá MLB-deildinni.
Úr varð að hann samdi við New York Mets og í dag hófst ferill hans sem atvinnumaður í hafnabolta. Þá hófust æfingabúðir hjá Mets.
Um leið hófst sala á Tebow-treyjum hjá Mets en þær eiga eftir að rjúka út. Það er klárt.
Tebow verður sendur til einhverra af neðrideildarliðum Mets og standi hann sig þar fær hann tækifæri á stóra sviðinu.
