Helga Dögg Björgvinsdóttir var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun þar sem hún sagðist ekki búa yfir skýringu á slæmu gengi kvenna í í prófkjörum flokksins. Konur hlutu afhroð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Karlmenn verma efstu fjögur sæti lista Suðvesturkjördæmis og þrjú efstu sætin í Suðurkjördæmi.
Sjá einnig: Sjálfstæðiskonur guldu afhroð
Rætt hefur verið um hvort listunum verði breytt svo fjölga megi konum í forystusveit flokksins og sagði Friðjón R. Friðjónsson, sem situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, að hann myndi ekki „styðja einsleita lista eins og niðurstöður prófkjöranna um helgina skiluðu.“ Þarf miðstjórn að samþykkja framboðslistana samkvæmt reglum flokksins.
Sjá einnig: Þungar áhyggjur og þórðargleði eftir afhroð Sjálfstæðiskvenna
„Þarna er kjörnefnd og forysta flokksins komin með vopn í hendurnar til þess að hafa áhrif á röðun á lista og breyta þessum prófkjörsniðurstöðum,“ segir Helga Dögg sem telur að ástandið í kynjajafnrétti sé verra í Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum.
„Ég veit ekki hvort það séu sterkari karlagildi í Sjálfstæðisflokknum að einhverju leyti en konur hafa átt mjög erfitt uppdráttar. Það hefur ekki mátt tala um jafnréttismál út frá kynjasjónarmiði, og það er ennþá þannig í ákveðnum kreðsum að maður er bara þaggaður niður,“ segir Helga Dögg.
Sjá einnig: „Konunum ekki úthýst á grundvelli kynferðis“
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ein af þeim konum sem sóttist eftir sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum en náði ekki sæti spurði á Facebook-síðu sinni hvort að sérstakt Kvennaframboð væri lausnin. Aðspurð um það segir Helga Dögg að það hafi verið rætt á meðal kvenna í kringum hana.
„Það er mjög stutt til kosninga og það þarf að hafa mjög hraðar hendur. En já, ég held að það geti alveg verið ef að öflugar konur taka sig saman, að við gætum séð eitthvað slíkt.“