Svo virðist sem að þeir fjölmörgu gestir sem munu bregða sér á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves munu detta í lukkupottinn því spáð er ágætis veðri fyrir þá daga sem hátíðin stendur yfir. Hátíðin hefst í dag og stendur fram á sunnudag.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir að versta veðrið verði í kvöld en það fari svo batnandi eftir því sem líður á hátíðina. Í kvöld er gert ráð fyrir úrkomu og allt að þrettán metrum úr sekúndu úr suðaustanátt.
Á morgun snýst þó til hægrar suðvestanáttar og gert er ráð fyrir minni úrkomu. Föstudagur og laugardagur verða þó bestu dagarnir veðurlega séð, þó kólna taki á föstudagskvöldið. Hægur vindur verður en þeir sem þekkja til Airwaves hátíðinnar þekkja hversu mikilvægt það er að ekki sé hvasst í miðborginni á meðan verið er að hoppa á milli staða til að sjá hinar fjölmörgu hljómsveitir sem koma fram.
Gert er ráð fyrir samskonar veðri á laugardeginum og á föstudeginum. Því er ljóst að aðstæður fyrir hátíðina verða varla betri sé miðað við að hátíðin sé haldin í nóvember á Íslandi. Þrátt fyrir að spáð sé 5-8 stiga hita á daginn má gera ráð fyrir því að kólna muni á kvöldin.
220 listamenn koma fram, þar af sjötíu erlendar hljómsveitir og von er á þúsundum gesta. Gera má ráð fyrir því að þeir muni setja sterkan svið á mannlífið á höfuðborgarsvæðinu næstu daga en allar helstu upplýsingar um Airwaves má nálgast hér.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Í dag og á morgun
Suðaustan 5-13 og súld eða rigning, en hægari og úrkomulítið á morgun. Hiti 4 til 8 stig.
Á föstudag
Úrkomulítið sunnan- og vestantil. Hiti að 5 stigum suðvestanlands og með suðurströndinni.
Á laugardag
Hæg breytileg átt, víða léttskýjað og frost um nær allt land.
