Alþingi samþykkti samgönguáætlun án mótatkvæða þann 12. október síðastliðinn, rétt fyrir kosningar til Alþingis. Breytingartillögur voru einnig samþykktar sem áttu að skilja milljörðum inn í samgöngumálin strax á næsta ári. Bjarni Benediktsson greiddi jafnframt atkvæði með áætluninni og allflestum breytingartillögum, þar á meðal breytingartillögu meirihluta samgöngunefndar um auknar fjárveitingar upp á um tíu milljarða króna.

Runólfur bendir einnig á að hækkun álagna á bifreiðaeigendur sé í pípunum samkvæmt frumvarpinu. Það eigi hins vegar ekki að skila sér í vegabótum. „Nú á að hækka skatta á bifreiðaeigendur umfram verðlagsþróun. Á sama tíma var boðað að lækka ætti skatta, því er þetta þvert á það sem boðað var.“
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, segir það þingsins núna að tryggja að engar tafir verði á Dýrafjarðargöngum og að framkvæmdir hefjist á næsta ári. „Það er hreinlega ekki í boði að göngin tefjist frekar. Þetta er gríðarlega mikilvæg samgöngubót fyrir fjórðunginn og landsmenn alla. Vestfirðir hafa þurft að sitja á hakanum lengi og nú er komið að þeim. Það er verkefni þingsins nú að koma verkinu áfram,“ segir Teitur Björn.

Íslenskt vegakerfi er mjög illa farið, að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra. Hann segist í hreinskilni ekki trúa því að þessi fjárlög verði að veruleika í óbreyttri mynd. „Við höfum margoft bent á það að til að halda í horfinu þurfum við um og yfir átta milljarða króna til viðhalds vega. Við erum að fá mun minna en það. Því er alveg ljóst að þessi fjárlög eru á nokkurn hátt sorgartíðindi fyrir okkur. Við fáum daglega kvartanir vegfarenda víðsvegar um landið vegna lélegra vega og því þurfum við að gera betur í þessum efnum,“ segir Hreinn.

Til að mynda verður ekki hægt að ljúka við gerð Dettifossvegar á næsta ári ef fjárlög fara í gegn óbreytt. Mikið hefur verið rætt um aðdráttarafl fossins fyrir ferðamenn. Er fossinn aflmesti foss í Evrópu og hefur mikið gildi fyrir ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir grátbroslegt að horfa upp á þennan leik einu sinni enn. „Við munum láta í okkur heyra. Það er búið að taka ákvörðun um þessa framkvæmd of oft. Nú þurfum við að sjá það að framkvæmdunum ljúki.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu