„Þessi leið er mun harðari en halda fólki á launaskrá, en þetta er neyðarúrræði sem fyrirtækin hafa í þeirri stöðu sem er, það er ekkert hráefni og fyrirtæki sjá ekki fram á að halda fullri vinnslu. Þarna eru fyrirtækin að taka þá áhættu að starfsfólkið nýti sér þann rétt að það geti tilkynnt að það fari að vinna annars staðar ef stoppið verður lengra en 5 vikur,“ segir Finnbogi Sveinsbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga í samtali við Bæjarins besta á Ísafirði.
Verkfall sjómanna hefur staðið frá því 14. desember síðastliðinn. Finnbogi segir erfitt fyrir hátt í hundrað manns að fá nýja vinnu á Vestfjörðum enda stór hluti atvinnustarfsemi tengdur sjávarútvegi.
Kristján Már Unnarsson tók hús á Íslensku Sjávarfangi í ágúst í fyrra en þá var blússandi gangur í makrílfrystingu.