Atvikið varð á milli klukkan hálf eitt og eitt í dag en rúmri klukkustund síðar barst lögreglu tilkynning um konu sem farið hefði í sjóinn við Kirkjufjöru, nærri Dyrhólaey. Hún fannst í sjónum eftir töluverða leit en eiginmaður hennar og tvö börn sluppu með skrekkinn. Ekki fást upplýsingar um líðan konunnar sem var lengi í sjónum.
„Ég sá stelpuna skola niður í fjöruna. Svo greipa allt í einu maður í hana. Þetta hefur verið svona tíu metrum frá mér,“ segir Hugi sem var með hóp ferðamanna á Suðurlandinu í dag. Hann segist hafa tekið eftir stelpunni skömmu fyrr þegar hann var í beinni útsendingu á Facebook úr fjörunni.

Öllum Íslendingum ætti að vera kunnugt um hættuna sem er fyrir hendi í Reynisfjöru. Kínverskur ferðamaður lét lífið í fjörunni í febrúar í fyrra og fleiri hafa tínt lífi. Þá hafa margir komist í hann krappann en öldur geta komið því sem næst upp úr þurru og tekið með sér fólk.
Brugðist hefur verið við með því að setja upp betri skilti á svæðinu, nú síðast í október. Skiltið má sjá hér að neðan.
Hugi segir að á leiðinni úr Reynisfjöru nokkru síðar hafi lögreglu borið að garði vegna hins slyssins í fjörunni í dag. Hann segir verst að hann hafi ekki náð myndbandi af því þegar stúlkan fór næstum með öldunni enda ljóst að slíkt hefði haft nauðsynlegt forvarnargildi.
Björgunarsveitarmenn munu standa vaktina í Reynisfjöru í dag og fram á kvöld.
Uppfært 10. janúar klukkan 19:30
Myndbandið hefur verið fjarlægt að ósk Huga.