Kannað verði hvort hringir á Nesinu séu írskt landnám
Vestan Nesstofu á Seltjarnarnesi bendir Þorgeir S. Helgason mannvirkjajarðfræðingur okkur á hvar sjá megi stóra hringi í landslaginu, sem hann segir að hafi ekki uppgötvast fyrr en eftir 1980.
„Og ekki fyrr en menn sáu þetta úr lofti," segir Þorgeir.
„Enginn hafði tekið eftir þessu, þar á meðal gamla konan sem bjó hér í Nesstofu alla sína tíð, í 70 ár, - þegar við töluðum við hana, - hún kannaðist ekkert við þá,“ segir Þorgeir.
Við sérstakar aðstæður sjást þessir hringlaga garðar vel úr lofti og þeir eru frá tíu metrum og upp í fimmtíu metrar í þvermál. Þjóðminjasafnið aldursgreindi garðana fyrir rúmum tuttugu árum og þá kom í ljós að þeir voru hlaðnir rétt eftir að landnámsöskulagið féll.
„Þetta er fljótlega eftir það. Þannig að þetta er alveg frá upphafi Íslandsbyggðar.“
Þorgeir hvetur til þess að hringirnir verði rannsakaðir nánar og sérstaklega með þá tilgátu í huga að þeir geti verið leifar af keltneskum mannvirkjum, sem þekktust á Bretlandseyjum um það leyti sem Ísland byggðist.
„Á Írlandi var þetta byggingarhefðin alveg fram yfir 1200. Menn byggðu garð í þessu þvermáli, eins og þetta sem við sjáum. En íveruhúsin, eða gripahús, voru inni í því,“ segir Þorgeir.
Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður og fornleifafræðingur, hefur lengi haldið því fram að keltnesk áhrif séu vanmetin í Íslandssögunni. Hann hefur bent á það að í einni útgáfu Landnámu komi fram að Gufa Ketilsson, sonur landnámsmanns Akraness, Ketils Bresasonar, sem kom frá Írlandi, hafi búið á Seltjarnarnesi.
„Gufa, sem var hér, var annarrar kynslóðar Íri. En eitt það fyrsta sem Ingólfur Arnarson gerir, Norðmaðurinn, þegar hann kemur hingað, er að reka burtu Gufu Ketilsson.
Og hversvegna í ósköpunum hefði landnámsmaðurinn norski, Ingólfur Arnarson, þurft að reka burtu Gufu Ketilsson hafi ekki Gufa Ketilsson verið hérna fyrir þegar hann kom?“ spyr Þorvaldur.
Tengdar fréttir
Landnámsöskulagið leiðrétt til ársins 877
Leiðrétta þarf helsta tímamæli landnámsins um sex ár eftir að ný rannsókn sýndi að landnámsöskulagið er ranglega tímasett.
Vantar marga kafla inn í Íslandssöguna
Þetta segir Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, höfundur nýrrar bókar um Árdaga Íslendinga.
Er Íslandssagan rétt ef hér stóð hús árið 810?
Fornleifar í Stöðvarfirði virðast vera nýjasta vísbendingin um að einhverjir hafi verið búnir að reisa skála á Íslandi löngu fyrir árið 874.
Keltnesk áhrif vanmetin í menningu Íslendinga
Keltnesk áhrif í íslenskri menningu eru mun meiri en menn hafa séð eða viljað vera láta, eins og í örnefnum og tungumálinu.
Er íslensk þjóð afurð grimmra stúlknarána?
Ísland var numið af norskum strákum sem fóru til Bretlands og náðu sér í konur, segir forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Þarf Ísland nýtt landnámsártal?
Er árið 874 enn í gildi eða voru einhverjir búnir að setjast að löngu á undan Ingólfi Arnarsyni?
Kverkarhellir gæti breytt tímasetningu landnámsins
Gæti jafnframt orðið fyrsta sönnunin fyrir veru papa á Íslandi.