„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég er mjög spennt og tilbúin í að fara í umhverfisráðuneytið og vinna að umhverfismálum,” sagði Björt í samtali við Vísi aðspurð um hvernig nýja starfið legðist í hana.

„Það eru rosalega stórar fréttir að þessi ríkisstjórn sé að láta af stóriðjustefnunni sem hefur verið við lýði í áratugi. Í því sambandi eru svo mörg önnur verkefni sem varða loftlagsmálin sem við þurfum að vinna að og setja upp aðgerðaráætlun í svo eitthvað sé nefnt.
Umhverfismál hafa lengi verið Björt mjög hugleikin. Ósnortin náttúra er henni mjög kær en hún leggur mikla áherslu á að unnið sé að verndun á miðhálendinu.
„Ég er alin upp mjög nálægt hálendinu í uppsveitum Árnessýslu og eyddi bernsku- og unglingsárum í hestaferðum þar yfir þannig að ósnortin víðerni eru mér mjög kær og ég legg mikla áherslu á eins og segir í stjórnarsáttmálanum að vinna að verndun á miðhálendinu.”
Björt sem er 33 ára hefur verið þingmaður Bjartrar framtíðar síðan 2013. Hún er annar tveggja ráðherra Bjartar framtíðar í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar en Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, mun gegna embætti heilbrigðisráðherra í nýskipaðri ríkisstjórn.