Hætti að reykja og byrjaði að borða
„Þegar ég hætti að reykja þá byrja ég að borða meira og þá fer ég að fitna og safna á mig kílóum., Það heldur síðan áfram þannig að fyrir sjö árum síðan er ég í sófanum heima með kartöfluflögur í annarri og kók í hinni, vaki fram eftir kvöldi, er í nammiskúffunni langt fram eftir kvöldi og sofna seint,“ segir Kristófer, en hann hætti að reykja fyrir 25 árum síðan.
Sumarið 2012 rann það upp fyrir honum að aðgerða væri þörf, en það var ein ljósmynd sem breytti öllu.

Valdi spretthlaupið fram yfir langhlaupið, þvert á ráðleggingar
Kristófer hafði samband við Ívar Guðmundsson, vin sinn og vinnufélaga, sem kom honum af stað. „Ég vissi að hann gæti þetta léttilega, því þegar hann gerir eitthvað þá gerir hann það rúmlega 100 prósent. Bara eins og þegar hann hætti að reykja fyrir mörgum árum, þá fór hann alla leið. Ég sagði að vísu við hann að þetta væri svolítið langhlaup en hann ákvað að hafa þetta svolítinn sprett,“ segir Ívar.

Náði markmiðinu fyrir settan tíma
„Ég tók út allan sykur, allt nammi, snerti ekki nammi, tók út allar mjólkurvörur nema skyr en ég leitaði í próteinið í því. Tók út brauð og markmiðið var á þeim tíma að ná mér niður í þyngd og að ná six pack-i fyrir jólin – svolítið bratt markmið kannski,“ segir hann. Markmiðið náðist og gott betur en það.
„Ég náði six pack-i töluvert fyrir markmiðið þannig á jólunum þá var hann kominn.“
Kristófer segir aðspurður að til þess að ná svona árangri þurfi bæði að huga að hreyfingu og mataræði. „Það er ekki nóg að fara bara í ræktina. Það þarf að taka allan pakkann og mataræðið með. Mataræðið er lágmark áttatíu prósent af þessu.“
