Í skýrslu greiningardeildarinnar kemur fram að í lok janúar hafi 910 fasteignir verið til sölu um allt land. Þegar mest var, í desember 2009, voru tæplega 4.500 fasteignir auglýstar. Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá áhyggjum fasteignasala af gríðarlegri spennu á markaði síðastliðnar þrjár vikur, eða allt frá því að greiningardeildin spáði 30 prósenta hækkun á fasteignaverði á næstu þremur árum. Þá var sagt frá því að í miklum mæli væri boðið hærra verð í fasteignir en ásett væri en einnig að sumir seljendur kysu að hunsa ráðleggingar fasteignasala og verðleggja sjálfir fasteignir sínar.

„Svo virðist sem ungt fólk sé að gefast upp á höfuðborgarsvæðinu og sé að færa sig á Suðurnesin, Selfoss, Hveragerði og upp á Akranes. Við höfum verið að sjá mestar hækkanir á því svæði. Eftirspurnin byrjaði að byggjast upp miðsvæðis en svo dreifist hún út í jaðarsvæði höfuðborgarsvæðisins,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeildinni.

Hjá Reykjavíkurborg er áformað að hefja byggingu 1.239 íbúða á þessu ári og 1.323 íbúða á næsta ári.
„Uppbyggingaráform á höfuðborgarsvæðinu hafa gengið illa eftir. Hvenær þetta íbúðamagn kemur loks inn á markaðinn er mjög erfitt að segja til um, hvort það verði 2019 eða 2020. Það fæst ekki séð að í ár eða á næsta ári komi það mikið eignamagn inn á markaðinn sem verði til þess að lækka þrýstinginn. Þótt uppbyggingaráformin séu háleit er ekkert víst hvenær þau koma til með að rætast,“ segir Erna.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu