Aníta Hinriksdóttir vann í dag til bronsverðlauna í 800 metra hlaupi á EM 2017 innanhúss sem fer fram í Belgrad.
Aníta kom í mark á 2:01,25 mínútum og var aðeins sjö sekúndubrotum frá Íslandsmetinu sem hún setti á Reykjavíkurleikunum fyrir mánuði.
Hin svissneska Selina Büchel varð Evrópumeistari annað skiptið í röð en hún vann einnig til gullverðlauna á EM í Prag fyrir tveimur árum. Þá lenti Aníta í 5. sæti.
Bronsverðlaun Anítu eru sjöttu verðlaunin sem Íslendingar vinna til á EM innanhúss og þau fyrstu í 19 ár.
Hreinn Halldórsson vann til gullverðlauna í kúluvarpi á EM í San Sebastián 1977.
Annar kúluvarpari, Pétur Guðmundsson, vann brons á EM í París 1994.
Tveimur árum síðar í Stokkhólmi varð Vala Flosadóttir Evrópumeistari í stangarstökki.
Á sama móti vann Jón Arnar Magnússon til bronsverðlauna í sjöþraut.
Vala Flosadóttir lenti í 3. sæti í stangarstökki á EM í Valencia 1998 en síðan tók við 19 ára bið eftir verðlaunum sem lauk loks í dag.
