Á myndinni má sjá Biel láta fara vel um sig í náttúrulaug með vínglas í hönd en Timberlake er þó hvergi sjáanlegur. Við myndina skrifar hún að hún sé að fagna Cinco de Mayo í náttúrulaug eins og alvöru illmenni úr Bond-myndunum. Í bakgrunni má svo sjá glitta í þyrlu sem áætla má að hjónin fari ferða sinna á.
Þau Timberlake og Biel komu hingað til lands í síðustu viku og ferðast nú um landið. Bárust meðal annars fregnir af því um síðustu helgi að parið hefði heimsótt Bakarameistarann í Suðurveri þar sem þau gæddu sér á ýmsum kræsingum ásamt fylgdarliði sínu.
Þetta er ekki fyrsta heimsókn Timberlake til landsins en hann hélt eftirminnilega tónleika í Kórnum í Kópavogi í ágúst 2014 en um sextán þúsund manns voru viðstaddir tónleikana.