„Ég hef mikla ástríðu fyrir mat og elska að vera í eldhúsinu að prófa nýja rétti og halda matarboð heima fyrir vini eða fjölskyldu. Einnig hef ég mikinn áhuga á því að taka fínar myndir af matnum sem ég bý til. Þess vegna finnst mér það ekki síður mikilvægt að maturinn líti vel út á disknum en að hann sé góður á bragðið,“ segir Jennifer en hún heldur einnig úti bloggi á Trendnet.is þar sem hægt er að fylgjast með lífi hennar, fyrir framan og aftan myndavélina.
Hér töfrar hún fram einfaldan eftirrétt sem enginn verður svikinn af.
Öll hráefnin má nálgast á Boxið, þar sem hægt er að panta vörur beint heim.


Innihald (fyrir 6)
Brakandi botn
6 Digestive-kexkökur
25 g smjör
Hvítsúkkulaðimús
2 eggjarauður (geymið eggjahvíturnar)
1 1/2 dl rjómi
1 msk. sykur
125 g hvítt súkkulaði, hakkað í bita
1 1/2 dl léttþeyttur rjómi með 1 msk. af sykri
2 eggjahvítur
Skreyting
Ástaraldin
Hindber
Marens
Leiðbeiningar:
- Botninn: Bræðið smjör í potti. Myljið Digistive-kexið niður, bætið því út í smjörið og hrærið. Leggið svo til hliðar.
- Hvítsúkkulaðimús: Hellið eggjarauðum, rjóma og sykri í pott. Látið það malla á lágum hita, hrærið á meðan þangað til áferðin er orðin þykkari. Takið pottinn af hellunni og bætið við hvítsúkkulaðinu, hrærið þangað til það hefur bráðnað. Leggið til hliðar og látið kólna.
- Þeytið eggjahvíturnar þangað ti þær eru orðnar stífar. Léttþeytið rjóma og sykur í annarri skál. Hrærið kólnaða hvítsúkkulaðinu rólega út í rjómann með sleif og síðan stífu eggjahvítunum.
- Leggið örlítið af Digistive-kexinu í skál eða glas og bætið músinni síðan ofan á. Látið standa í ísskáp í a.m.k. klukkustund.
- Skreytið með ástaraldini, hindberjum og muldum marens.