Sveitarfélögin Skagafjörður og Skagabyggð hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um kosti þess að sameinast. Málið hefur verið rætt á óformlegum nótum hingað til en á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir helgi hófust viðræður formlega.
„Við sjáum fyrir okkur að það yrði mikill hagur fólginn í sameiningu fyrir bæði sveitarfélögin. Við verðum stærra og öflugra samfélag og betur í stakk búin til að takast á við það sem okkur ber að sinna gagnvart íbúum og stjórnsýslu. Ég tel að viðræðurnar, og vonandi sameining, komi enn frekari hreyfingu á sameiningarmál á svæðinu,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Með sameiningarmálum á svæðinu á Stefán meðal annars við sveitarfélög í Húnavatnssýslum.
Skagabyggð varð til árið 2002 við sameiningu Skagahrepps og Vindhælishrepps. Í sveitarfélaginu búa um eitt hundrað manns en íbúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru tæplega fjögur þúsund.
Skagafjörður og Skagabyggð hefja formlegar viðræður um sameiningu
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
