Umhverfisstofnun telur líklegt að Ísland verði ekki innan heimilda á öðru tímabili Kýótó-bókunarinnar og þurfi að kaupa heimildir til að standa við skuldbindingar sínar. Þetta kemur fram í greiningu Umhverfisstofnunar um stöðu Íslands gagnvart skuldbindingum sínum á öðrum tímabili Kýótó-bókunarinnar (2013 – 2020).
Í greiningunni kemur fram að Ísland þurfi að kaupa heimildir sem nemi um 3,6 milljónum tonna af koldíoxíðígildum fyrir tímabilið í heild.
Umhverfisstofnun segir einkum tvær ástæður fyrir því að Ísland fari líklega yfir heimildir sínar. Annars vegar er útlit fyrir að kolefnisbinding í skógrækt og landgræðslu verði minni en gert var ráð fyrir í aðgerðaáætlun árið 2010. Hins vegar sé ljóst að mikil aukning í komum ferðamanna til Íslands og hagvöxtur vegna þess hafi áhrif á losun, meðal annars frá samgöngum og í byggingariðnaði. Losun frá sjávarútvegi hafi minnkað verulega frá 1990, en lítið breyst frá landbúnaði.
