Úlfatíminn og líkamsklukkan Þórlindur Kjartansson skrifar 3. nóvember 2017 07:00 Þegar ómálga börn hætta að vera síhlæjandi brosboltar og verða skyndilega pirruð og óhuggandi þá eru foreldrar oftast ekki lengi að draga þá ályktun að þau séu annað hvort orðin þreytt eða svöng. Foreldrar eru líka fljótir að sjá hversu mikil áhrif ónógur nætursvefn hefur á lundarfar og hegðun barnanna, og kappkosta því af sínu fremsta megni að gera börnum sínum mögulegt að sofna nógu snemma á kvöldin. Þegar fólk eldist og lærir að tjá sig í orðum hættir það gjarnan að tengja slíkar skapsveiflur við vanrækslu á líkamlegum grunnþörfum. Fullorðið fólk sem er pirrað á daginn finnur yfirleitt ástæðuna í samstarfsfólkinu, veðurfarinu, blóðsykrinum, makanum eða bara einhverju öðru sem neitar að hegða sér nákvæmlega eins og þeim sjálfum hentar. Mannfólkið er skynsemisverur; og í allri sinni skynsemi leitar það oftast að ástæðum vanlíðunar sinnar í allt öðrum þáttum en virðast hinir augljósu sökudólgar þegar ungabörn eiga í hlut.Allt í hers höndum Á mörgum heimilum er hann kallaður „úlfatíminn“, þessar örfáu samverustundir fjölskyldunnar eftir vinnu og fram að kvöldmat. Margir eru þá svo þreyttir og svangir eftir daginn að þeir eru ekki bara úrillir heldur nánast „górillir“. Þráðurinn er stuttur í öllum, börnin eru ómöguleg, foreldrarnir úrvinda og tómir til augnanna eftir spretthlaupið í lok vinnudags—og byrja margir að kvíða fyrir því að koma börnunum í háttinn. Og morgnarnir geta líka verið erfiðir á veturna. Fyrir stóran hluta þjóðarinnar er það daglegur barningur að komast á lappir. Ég þekki að minnsta kosti ekki marga sem líta út eins og Guðjón Valur í hafragrautarauglýsingunum þegar þeir vakna á morgnana; reyndar er þetta ekki alveg sanngjarnt—ég þekki engan sem lítur eins frísklega út og Guðjón Valur, óháð tíma dagsins. En þótt það sé ekki raunhæft markmið að vera eins morgunhress og atvinnuíþróttamaður í sjónvarpsauglýsingu þá er það staðreynd að á Íslandi fer fólk síðar að sofa og sefur skemur en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Og morgnarnir eru „ferskir“ eftir því.Hormónarugl Ónógur svefn hefur ýmis slæm áhrif á fólk bæði til lengri og skemmri tíma. Nýlegar rannsóknir benda til þess að þessi áhrif séu jafnvel ennþá meiri en áður var talið. Þar að auki hrannast um þessar mundir upp vísindalegar staðfestingar á því að hin innbyggða líkamsklukka okkar sé illviðráðanlegt náttúruafl og að það sé ekki kostnaðarlaust fyrir fólk að streitast gegn henni. Þegar við fórnum svefni þá stelum við af líkamanum þeim tíma sem hann hefur til þess að koma böndum á hormónastarfsemina í heilanum og að gera aðrar nauðsynlegar lagfæringar á líkamanum til þess að við séum endurnærð fyrir næsta dag. Eitt mikilvægasta hlutverk svefnsins er talið vera að koma böndum á stress-hormónið kortisól; og ef líkamanum gefst ekki tími til þess þá er hætt við að ýmis heilastarfsemi hrökkvi úr lagi. Illa sofinn líkami á erfiðara með að standast mótlæti og álag; og þótt fólki takist oftast að spóla sig stórslysalaust í gegnum daginn þá er oft lítið eftir seinnipartinn og stutt í að fólk verði óþreyjufullt, pirrað og viðskotaillt. Í slíku ástandi hættir fólki ekki aðeins til þess að vera óþolandi í umgengni, heldur fer ákvarðanataka úr skorðum–og þess vegna er það einkum á kvöldin sem fólki finnst það vera góð hugmynd að háma í sig óhollan mat, hanga á Netflix langt framyfir háttatíma eða sturta í sig áfengi til þess að komast í þolanlegt skap.Myrkir morgnar Hér á Íslandi er klukkan stillt þannig að við fórnum mikilli morgunbirtu. Í Reykjavík hættir til að mynda að vera bjart klukkan átta að morgni þann 25. október. Niðamyrkur morgnanna er svo viðvarandi til 25. febrúar. Í 123 daga á ári fara flestir Íslendingar því af stað til vinnu og skóla í kolniðamyrkri og eru löngu komnir á fætur þegar loks fer að birta af degi. Þetta setur líkamsklukkuna úr skorðum og leiðir meðal annars til þess að fólk er að jafnaði ekki tilbúið til að fara að sofa á þeim tíma sem skynsamlegast væri. Þessir myrku morgnar eru hins vegar ekki óhjákvæmilegir. Pólitískar ákvarðanir geta vitaskuld engu breytt um gang himintunglanna; en það er hins vegar pólitísk ákvörðun að stilla klukkuna á Íslandi úr takti við sólarhringinn með þeim afleiðingum að Íslendingar upplifa umtalsvert fleiri myrka morgna yfir veturinn heldur en íbúar annarra svæða á svipaðri breiddargráðu. Ef klukkan hér væri rétt stillt þá væru myrkir morgnar í Reykjavík ekki nema 57 talsins (frá 29. nóvember til 24. janúar) og ef klukkunni væri seinkað um tvær klukkustundir væri það ekki nema í 17 daga á ári sem ekki yrði orðið bjart klukkan átta að morgni (frá 18. des til 4. jan).Áskorun til Óttars Proppé Björt framtíð vakti fyrir nokkrum árum mikla athygli með tillögu sinni um að seinka klukkunni á Íslandi. Sterkustu rökin fyrir þessari lagfæringu eru hin margvíslegu lýðheilsusjónarmið sem virðast stöðugt meira sannfærandi. Nú þegar styttist í annan endann hjá sitjandi starfsstjórn færi vel á því að fráfarandi heilbrigðisráðherra gerði það að einu af sínum síðustu verkum að setja á fót nefnd sérfræðinga í svefnrannsóknum og lýðheilsu til þess að taka afstöðu til þess hvort í því kunni að felast vellíðunarbót fyrir Íslendinga að stilla klukkuna okkar, og hversdagstaktinn, betur í samræmi við gang sólarinnar. Ef vísindin hafa á réttu standa gæti Björt framtíð þannig komið til leiðar meiri og jákvæðari breytingum á daglegu lífi þorra þjóðarinnar en flestir aðrir fylgismeiri og langlífari stjórnmálaflokkar. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórlindur Kjartansson Mest lesið 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal Skoðun Smábátar bjóða betur! Kjartan Páll Sveinsson Skoðun Stjórnlaust útlendingahatur Útlendingastofnunar Jón Frímann Jónsson Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir Skoðun Hverskonar frelsi vill Viðreisn? Reynir Böðvarsson Skoðun Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Af hverju hóflegan jöfnuð fremur en ójöfnuð? Guðmundur D. Haraldsson Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar – Móses og Martin Luther King Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Tíminn til að njóta Þröstur V. Söring Skoðun
Þegar ómálga börn hætta að vera síhlæjandi brosboltar og verða skyndilega pirruð og óhuggandi þá eru foreldrar oftast ekki lengi að draga þá ályktun að þau séu annað hvort orðin þreytt eða svöng. Foreldrar eru líka fljótir að sjá hversu mikil áhrif ónógur nætursvefn hefur á lundarfar og hegðun barnanna, og kappkosta því af sínu fremsta megni að gera börnum sínum mögulegt að sofna nógu snemma á kvöldin. Þegar fólk eldist og lærir að tjá sig í orðum hættir það gjarnan að tengja slíkar skapsveiflur við vanrækslu á líkamlegum grunnþörfum. Fullorðið fólk sem er pirrað á daginn finnur yfirleitt ástæðuna í samstarfsfólkinu, veðurfarinu, blóðsykrinum, makanum eða bara einhverju öðru sem neitar að hegða sér nákvæmlega eins og þeim sjálfum hentar. Mannfólkið er skynsemisverur; og í allri sinni skynsemi leitar það oftast að ástæðum vanlíðunar sinnar í allt öðrum þáttum en virðast hinir augljósu sökudólgar þegar ungabörn eiga í hlut.Allt í hers höndum Á mörgum heimilum er hann kallaður „úlfatíminn“, þessar örfáu samverustundir fjölskyldunnar eftir vinnu og fram að kvöldmat. Margir eru þá svo þreyttir og svangir eftir daginn að þeir eru ekki bara úrillir heldur nánast „górillir“. Þráðurinn er stuttur í öllum, börnin eru ómöguleg, foreldrarnir úrvinda og tómir til augnanna eftir spretthlaupið í lok vinnudags—og byrja margir að kvíða fyrir því að koma börnunum í háttinn. Og morgnarnir geta líka verið erfiðir á veturna. Fyrir stóran hluta þjóðarinnar er það daglegur barningur að komast á lappir. Ég þekki að minnsta kosti ekki marga sem líta út eins og Guðjón Valur í hafragrautarauglýsingunum þegar þeir vakna á morgnana; reyndar er þetta ekki alveg sanngjarnt—ég þekki engan sem lítur eins frísklega út og Guðjón Valur, óháð tíma dagsins. En þótt það sé ekki raunhæft markmið að vera eins morgunhress og atvinnuíþróttamaður í sjónvarpsauglýsingu þá er það staðreynd að á Íslandi fer fólk síðar að sofa og sefur skemur en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Og morgnarnir eru „ferskir“ eftir því.Hormónarugl Ónógur svefn hefur ýmis slæm áhrif á fólk bæði til lengri og skemmri tíma. Nýlegar rannsóknir benda til þess að þessi áhrif séu jafnvel ennþá meiri en áður var talið. Þar að auki hrannast um þessar mundir upp vísindalegar staðfestingar á því að hin innbyggða líkamsklukka okkar sé illviðráðanlegt náttúruafl og að það sé ekki kostnaðarlaust fyrir fólk að streitast gegn henni. Þegar við fórnum svefni þá stelum við af líkamanum þeim tíma sem hann hefur til þess að koma böndum á hormónastarfsemina í heilanum og að gera aðrar nauðsynlegar lagfæringar á líkamanum til þess að við séum endurnærð fyrir næsta dag. Eitt mikilvægasta hlutverk svefnsins er talið vera að koma böndum á stress-hormónið kortisól; og ef líkamanum gefst ekki tími til þess þá er hætt við að ýmis heilastarfsemi hrökkvi úr lagi. Illa sofinn líkami á erfiðara með að standast mótlæti og álag; og þótt fólki takist oftast að spóla sig stórslysalaust í gegnum daginn þá er oft lítið eftir seinnipartinn og stutt í að fólk verði óþreyjufullt, pirrað og viðskotaillt. Í slíku ástandi hættir fólki ekki aðeins til þess að vera óþolandi í umgengni, heldur fer ákvarðanataka úr skorðum–og þess vegna er það einkum á kvöldin sem fólki finnst það vera góð hugmynd að háma í sig óhollan mat, hanga á Netflix langt framyfir háttatíma eða sturta í sig áfengi til þess að komast í þolanlegt skap.Myrkir morgnar Hér á Íslandi er klukkan stillt þannig að við fórnum mikilli morgunbirtu. Í Reykjavík hættir til að mynda að vera bjart klukkan átta að morgni þann 25. október. Niðamyrkur morgnanna er svo viðvarandi til 25. febrúar. Í 123 daga á ári fara flestir Íslendingar því af stað til vinnu og skóla í kolniðamyrkri og eru löngu komnir á fætur þegar loks fer að birta af degi. Þetta setur líkamsklukkuna úr skorðum og leiðir meðal annars til þess að fólk er að jafnaði ekki tilbúið til að fara að sofa á þeim tíma sem skynsamlegast væri. Þessir myrku morgnar eru hins vegar ekki óhjákvæmilegir. Pólitískar ákvarðanir geta vitaskuld engu breytt um gang himintunglanna; en það er hins vegar pólitísk ákvörðun að stilla klukkuna á Íslandi úr takti við sólarhringinn með þeim afleiðingum að Íslendingar upplifa umtalsvert fleiri myrka morgna yfir veturinn heldur en íbúar annarra svæða á svipaðri breiddargráðu. Ef klukkan hér væri rétt stillt þá væru myrkir morgnar í Reykjavík ekki nema 57 talsins (frá 29. nóvember til 24. janúar) og ef klukkunni væri seinkað um tvær klukkustundir væri það ekki nema í 17 daga á ári sem ekki yrði orðið bjart klukkan átta að morgni (frá 18. des til 4. jan).Áskorun til Óttars Proppé Björt framtíð vakti fyrir nokkrum árum mikla athygli með tillögu sinni um að seinka klukkunni á Íslandi. Sterkustu rökin fyrir þessari lagfæringu eru hin margvíslegu lýðheilsusjónarmið sem virðast stöðugt meira sannfærandi. Nú þegar styttist í annan endann hjá sitjandi starfsstjórn færi vel á því að fráfarandi heilbrigðisráðherra gerði það að einu af sínum síðustu verkum að setja á fót nefnd sérfræðinga í svefnrannsóknum og lýðheilsu til þess að taka afstöðu til þess hvort í því kunni að felast vellíðunarbót fyrir Íslendinga að stilla klukkuna okkar, og hversdagstaktinn, betur í samræmi við gang sólarinnar. Ef vísindin hafa á réttu standa gæti Björt framtíð þannig komið til leiðar meiri og jákvæðari breytingum á daglegu lífi þorra þjóðarinnar en flestir aðrir fylgismeiri og langlífari stjórnmálaflokkar. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun