Landsréttur hefur fallist á að kona nokkur á Norðurlandi skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði gegn barnsföður sínum. Konan sendi barnsföður sínum 1277 SMS og hringdi 572 sinnum í símanúmer hans á sex mánaða tímabili í fyrra, frá maí fram í nóvember.
Samkvæmt frásögn brotaþola og texta skilaboðanna einkennist samskiptin af áreitni og svívirðingum í garð brotaþola og unnustu hans og hafi engan annan tilgang en að skerða friðhelgi brotaþola. Telur Lögreglustjórinn á Norðurlandi að miðað við hegðun konunnar, sem lögregla hafi oft rætt við án breytinga í hegðun hennar. sé ekki hægt að tryggja frið brotaþola með öðrum hætti en nálgunarbanni.
Lögmaður konunnar taldi að líta yrði til þess að mörg skilaboðanna væru í samfellu. Þau mætti flokka í 220-250 „hópa“. Þá yrði að meta þau í því ljós að maðurinn og konan ættu barn saman og þurfi því að hafa samskipti. Þau deili nú um forsjá barnsins.
Taldi lögmaðurinn að maðurinn upplifði samskiptin ekki sem rof á friðhelgi enda hefði hann hvorki kvartað yfir þeim né beðið varnaraðila að láta af þeim. Ásakanir mannsins á hendur konunni um annað en samskipti símleiðis væru aðeins studdar framburði mannsins hjá lögreglu.
Féllst Héraðsdómur Norðurlands eystra, og síðar Landsréttur, á að texti skilaboða frá konunni til mannsins fælu í fjölmörgum tilvikum í sér móðganir og svívirðingar í garð mannsins og unnustu hans. Ekki yrði litið til annars en að í þeim fælist röskun á friði brotaþola.
