Húsfundi í Grindavík, þar sem ræða átti hvort vísa eigi þremur íbúum úr fjölbýlishúsi fyrir það að vera ekki orðnir 50 ára gamlir, var frestað því sátt virðist vera að nást í málinu.
Vísir sagði frá málinu í síðustu viku en íbúarnir eru hjón og sonur þeirra. Eiginmaðurinn verður fimmtíu ára á næsta ári en eiginkona hans verður fimmtíu ára í september. Nítján ára gamall sonur þeirra býr hjá þeim.
Þau keyptu fyrir skömmu íbúð í fjölbýlishúsinu að Suðurhópi 1. Það hús er aðeins ætlað fólki sem er fimmtíu ára eða eldra.
Á fundinum sem var frestað var ætlunin að ræða tillögu þess efnis að lögmanni yrði falið að leita allra leiða til að fá íbúana þrjá úr húsinu. Kom til greina að fara með kröfu um útburð fyrir dómstóla.
Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður húsfélagsins, segir að fundinum hafi frestað vegna þess að verið sé að reyna að ná sátt í málinu.
„Og það er nánast í höfn,“ segir Auður en sagðist þó ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu í hverju sú sátt sé fólgin.
Sátt að nást í stóra Grindavíkurmálinu

Tengdar fréttir

Vilja leita allra leiða til að fá tæplega fimmtug hjón borin út úr blokk ætlaðri fimmtíu ára og eldri
Stjórnin harmar tímasetningu á fundarboði sem barst eigandanum daginn fyrir útför bróður hans.