Tvær íbúðir og eitt 250 fermetra einbýlishús í eigu bæjarins eru leigð íþróttafélaginu Stjörnunni endurgjaldslaust fyrir atvinnu- og afreksíþróttafólk félagsins. Bæjarfulltrúi í Garðabæ vill vita hvers vegna bærinn leigi eignirnar og ellefu aðrar á almennum markaði á sama tíma og íbúar eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
„Stjarnan hefur farið þarna inn með sitt fólk og tjaslað þessu aðeins til en þetta er yfirleitt tímabundið. Það hefur verið ágætis lausn þannig. Þannig höfum við náð að styrkja félagið og starfsemina þar,“ segir Gunnar aðspurður um íbúðirnar sem Stjarnan fær endurgjaldslaust.
Hinar ellefu fasteignirnar sem María Grétarsdóttir, bæjarfulltrúi M-lista fólksins í bænum, spurði um á fundi bæjarráðs á þriðjudag eru leigðar út gegn greiðslu.

„Við höfum sagt við Stjörnuna að þarna sé húsnæði sem við viljum ekki leigja út vegna þess að það var stefnt að því að rífa það og það er ekki í góðu ásigkomulagi. Við vildum ekki fara í viðgerðir á húsinu til að fara að leigja það út. Stjarnan leit á þetta hús og gerði eitthvað við það. En það er bara tímabundið. Við keyptum það á sínum tíma til niðurrifs. Síðan fékk leikskóli þarna inni þar til heilbrigðiseftirlitið gerði athugasemdir við að það væri ekki nægjanlega gott.“
Aðspurður segir Gunnar að þær íbúðir í eigu bæjarins sem leigðar eru út á almennum markaði henti ekki til félagslegrar útleigu.
„Þetta er víkjandi húsnæði. En við erum að fara yfir hverja og eina íbúð með skýringum á hvernig fólk hefur farið þar inn og hvers vegna og það leggjum við fram í bæjarráði á þriðjudag.“
Aðspurður hversu margir bíði eftir félagslegu húsnæði kveðst Gunnar ekki vita nákvæma tölu nú en nýverið hafi það verið rétt rúmlega tuttugu. Þar sé ekki fólk í bráðri neyð.
„Það er enginn á götunni, það er fólk sem er að óska eftir öðruvísi húsnæði. Biðlistinn okkar er tiltölulega stuttur miðað við það sem gengur og gerist í nágrannasveitarfélögunum.“
Ljóst er að Stjarnan fær ágæta meðgjöf frá bænum því á sama bæjarráðsfundi var samþykkt að veita félaginu tæpar 1,7 milljónir í styrk til að greiða álögð fasteignagjöld félagsins.