Um 400 manns hafa kosið utan kjörfundar í kosningu um nýjan formann og stjórn Eflingar. Kjörfundur hefst klukkan níu í dag á skrifstofu félagsins að Guðrúnartúni 1 og stendur til kl. 16 á morgun.
„Það hefur aldrei verið rafræn kosning hjá Eflingu,“ segir Magnús M. Norðdahl, formaður Kjörstjórnar Eflingar. Aðspurður segir Magnús reynslu ASÍ sýna að þátttaka í rafrænum kosningum sé ekki meiri en í kjörstaðakosningum.
„Það var mat þeirra sem gerst þekkja til að það væri farsælla að vera ekki með einhverja tilraunastarfsemi í því sambandi innan félagsins en nota frekar annað tækifæri til þess,“ segir Magnús.
