Um klukkan 13:00 var óskað eftir aðstoð björgunarsveita vegna jeppa sem keyrt hafði fram af hengju við Strýtur sunnan við Hveravelli. Neyðarlínan gat óskað eftir aðstoð þriggja björgunarsveita, sem voru við æfingar á svæðinu. Þrennt var slasað í bílnum og var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að flytja fólkið af vettvangi.
Rétt fyrir klukkan þrjú var björgunarsveitin Þorbjörn frá Grindavík kölluð út vegna fjórhjólaslyss sem varð á veginum að Vigdísarvöllum við Suðurstarndaveg. Maður sem velt hafði hjólinu sínu lá slasaður og var kallaður til sjúkrabíll. Vegna ástands sjúklingsins þótti ekki ráðlegt að flytja hann landleiðina og því var óskað eftir þyrlu til þess að flytja hann af vettvangi.
Björgunarsveitin á Dalvík fékk þá boð um að slasaður skíðamaður væri á Heljardalsheiði. Sjúkraflutningarmenn frá Dalvík ásamt björgunarsveitinni voru að nálgast manninn upp úr klukkan fimm.
