Nokkuð hefur verið fjallað um þögn Gylfa og fráfarandi formanns, Sigurðar Bessasonar, í garð Sólveigar eftir sigur hennar á miðvikudag. Sólveig staðfesti við Fréttablaðið.is að hvorugur hefði þá haft samband við hana eftir sigurinn, nokkuð sem henni þótti svolítið skrýtið.
Gylfi kveðst í samtali við Fréttablaðið hafa verið staddur í Bandaríkjunum og því ekki gefið sér tíma til að setja sig í samband við Sólveigu Önnu, en segir mönnum frjálst að túlka að vild. „Ég ætla ekki að bera ábyrgð á því hvernig menn hafa lesið í þessa þögn.“
Gylfi segir sigur Sólveigar vissulega hafa verið glæsilegan og ljóst að verkefnin fram undan séu ærin.
„Ég fagna því að fólk komi til starfa á vettvangi hreyfingarinnar fullt af eldmóði. Það er mikilvægt fyrir hreyfinguna. Hér er kominn nýr forystumaður að taka við Eflingu, sem er okkar næststærsta félag og þetta er flott niðurstaða fyrir hana.“

Kjör Sólveigar Önnu gæti því hafa verið síðasta púslið í að breytingar kunni að vera í farvatninu í forystu ASÍ á Alþýðusambandsþingi í haust.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafði lýst því yfir fyrir kosningarnar í Eflingu að ef Sólveig næði kjöri yrði Gylfa ekki stætt lengur sem forseta ASÍ.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, fagnaði því í pistli á heimasíðu félagsins að nú hefði nýr meirihluti náð yfirhöndinni innan ASÍ.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins innan úr verkalýðshreyfingunni líta margir svo á að Gylfi sjái sæng sína upp reidda innan ASÍ.
Gylfi kveðst enga ákvörðun hafa tekið um framtíð sína sem forseta.
„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég er alveg hættur að hafa úthald í að tjá mig um það þegar Ragnar Þór Ingólfsson finnur sér tilefni til að hafa skoðun á mér. Ég ætla ekki að elta ólar við það.“