Í desember á síðasta ári var efnt til svokallaðrar hugmyndaleitar þar sem leitað var eftir hugmyndum um framtíðarútlit í takt við nýja uppbyggingu og starfsemi á svæðinu í kringum Hlemm. Er stefnt að því að þesar hugmyndir leiði til nýs heildarútlits á svæðinu.
Er stefnt að því að Hlemmtorg muni „verða að nútíma borgarrými þar sem gangandi, hjólandi og almenningssamgöngum verður gert hátt undir höfði með mannvænum dvalarsvæðum og iðandi borgarumhverfi.“

Þar er lagt til að biðstöðvar fyrir Borgarlínuna fyrirhuguðu verði á endum svæðisins en með því sé hægt að skapa grundvöll fyrir „iðandi mannlíf á öllu torginu.“
Gert er ráð fyrir svæði í miðjunni fyrir sölutjöld eða skýli sem hægt verði að nota í tengslum við árstíðabundna viðburði. Þá er gert ráð fyrir að Mathöllin á Hlemmi geti stækkað.

Með því að byggja yfir önnnur rými á svæðinu aukist notagildi torgsins og sá tími árs sem hægt er að nýta á almenningssvæðum lengist.
Gert er ráð fyrir gróðurhúsi og borðtennisbar á svæðinu auk rýmis þar sem gera megi við reiðhjól.

Tillögur arkitektastofanna þriggja má nálgast á vef Reykjavíkurborgar.