Leiðtogar repúblikana og demókrata í utanríkisnefnd bandaríska fulltrúaþingsins hafa sent íslenska sendiráðinu í Washington bréf þar sem hið svokallaða umskurðarfrumvarp, sem nú liggur fyrir alþingi, er harðlega gagnrýnt.
„Þrátt fyrir að það séu ekki margir múslimar eða gyðingar á Íslandi myndi bann ykkar vera vatn á myllu þeirra sem hagnýta sér kynþáttafordóma og gyðingaandúð í löndum þar sem lýðfræðilegi fjölbreytni er meiri,“ segir í bréfi þeirra Ed Royce, repúblikanans sem fer fyrir utanríkisnefndinni, og Eliot Engel, leiðtoga demókrata í nefndinni. Bréfið er dagsett 5. apríl en rataði fyrst erlenda í fjölmiðla í gær eftir að því hafði verið lekið til samtakanna Orthodox Union sem talað hafa gegn íslenska frumvarpinu á alþjóðavettvangi.
„Sem vinaþjóð ykkar hvetjum við ríkisstjórnina til að koma í veg fyrir að þetta óumburðarlynda frumvarp nái fram að ganga,“ segir ennfremur í bréfi þeirra Royce og Engel.
Frumvarpið sem nú liggur fyrir alþingi Alþingi felur í sér að umskurður barna almennt yrði bannaður. Frumvarpið kveður einnig á um að lagt verði bann við umskurði á kynfærum drengja en nú þegar er umskurður á kynfærum stúlkna bannaður. Brot á lögunum gæti varðað við sex ára fangelsi en umskurður af læknisfræðilegum ástæðum yrði áfram leyfður. Frumvarpið fékk strax mikil viðbrögð frá trúarleiðtogum í Evrópu en verði frumvarpið að lögum yrði Ísland fyrsta Evrópulandið til að banna umskurð.
Umskurður er ekki algengur á Íslandi en talið er að um á annað hundrað gyðinga og rúmlega 1100 múslimar búi hér á landi.
Frá árinu 2006 hefur 21 drengur undir 18 ára aldri verið umskorinn á Íslandi að sögn heilbrigðisráðuneytisins. Hversu margir voru umskornir af trúarlegum ástæðum fylgir hins vegar ekki sögunni.

