Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff gengu í hjónaband 14. maí 2003, eða fyrir sléttum fimmtán árum. Þau höfðu verið trúlofuð frá árinu 2000. Forsetahjónin voru gefin saman á afmælisdegi Ólafs Ragnars eftir afmælishátíð sem haldin var í Borgarleikhúsinu í tilefni af sextugsafmæli forsetans.
Guðmundur Sophusson, sýslumaður í Hafnarfirði, gaf brúðhjónin saman. Athöfnin var látlaus og fór fram í Bessastaðastofu að fjölskyldu forsetans viðstaddri og var það í fyrsta skipti í sögunni sem forsetabrúðkaup fór fram á Bessastöðum.
Dorrit vakti strax athygli og vann fljótlega huga og hjörtu íslensku þjóðarinnar. Hún tók virkan þátt í embættisstörfum Ólafs Ragnars alveg þangað til hann lét af embætti, árið 2016. Hún var áberandi í forsetakosningunum árið 2012 og til marks um það var vefslóðin á heimasíðu framboðs Ólafs Ragnars þá www.olafurogdorrit.is
Þau Ólafur og Dorrit hafa ekki flíkað einkalífi sínu mikið í fjölmiðlum, en forsetinn fyrrverandi sló þó á létta strengi þegar þau voru í heimsókn á Fljótsdalshéraði á Valentínusardaginn 2014. Í fyrirspurnartíma í Menntaskólanum á Egilsstöðum var Ólafur spurður hvort hann ætlaði að gera eitthvað fyrir frúna í tilefni Valentínusardagsins.
„Ég velti fyrir mér hvað ég ætti að gera fyrir Dorrit og ákvað að bjóða henni í fjósið. Ég veit það er ekki rómantískt en stundum held ég að hún elski beljurnar meira en mig. Henni finnst mjög gaman að koma í fjós,“ sagði Ólafur Ragnar samkvæmt frásögn Austurfréttar.
Ólafur Ragnar fagnar 75 ára afmæli í dag. Hann er fæddur á Ísafirði, sonur Gríms Kristgeirssonar rakara og Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar húsmóður. Fyrri eiginkona Ólafs Ragnars var Guðrún Katrín Þorbergsdóttir sem lést úr hvítblæði árið 1998.
