Á fundi kirkjuráðs í maí var samþykkt að vekja athygli sóknarprestsins í Holti í Önundarfirði á því að hann þurfi leyfi ráðsins til að reka heimagistingu í prestsbústaðnum sem þar er auglýst.
Aðspurður segir Oddur ekkert í vegi fyrir því að presturinn fái slíka heimild.

„Hann er búinn að fá öll önnur tilskilin leyfi sem hann þarf en honum láðist að biðja um leyfi frá okkur. Hann áttaði sig ekki á því að þetta stendur í starfsreglum að hann megi þetta ekki nema hann fái leyfi. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hann fái það, en það er kirkjuráðs að ákveða.“
Oddur kveðst ekki vita betur en að presturinn, séra Fjölnir Ásbjörnsson, búi ekki sjálfur í prestsbústaðnum heldur sé fluttur á Flateyri. Bústaðurinn virðist hins vegar eftirsóttur til útleigu og þeirri eftirspurn hafi presturinn svarað.
Starfsemin veki þó að mati Odds spurningar út frá samkeppnissjónarmiðum ef presturinn sé í samkeppni við aðra gististaði eða ferðaþjónustuaðila.

Í samtali við Fréttablaðið tekur séra Fjölnir fyrir það að hann sé á leið í samkeppnisrekstur með heimagistingu í prestsbústaðnum. Annars telji hann að málið kunni að stafa af misskilningi milli hans og kirkjuráðs og hann vilji ekki tjá sig um málið fyrr en hann hafi rætt það við kirkjuna.
Þess ber að geta að prestsbústaðurinn í Holti er skráður heimagisting á vef sýslumanna og hægt er að bóka gistingu þar á vefnum Booking.com. Þar kemur fram að gististaðurinn í prestsbústaðnum hafi verið starfræktur frá 8. maí síðastliðnum.