Þurfa lygn og þurr kvöld til að fljúga
Erling Ólafsson skordýrafræðingur segir í samtali við Vísi að sér hafi borist nokkur fjöldi ábendinga um lúsmý, ceratopogonidae á latínu, það sem af er sumri. Lúsmýið sé þó greinilega ekki jafnupplitsdjarft í sumar og árin á undan.
Erling segir flugurnar ekki hefja sig til flugs þegar rignir og því hafi vætutíðin á Suður- og Vesturlandi letjandi áhrif á ferðir þeirra.
„Það þarf lygn og þurr kvöld til að fljúga. Fólk hefur þess vegna einna helst verið bitið inni í sumarhúsum.“
Loftslagsbreytingar gætu verið innspýting í stofninn
Sem fyrr herjar lúsmýið helst á íbúa og gesti í uppsveitum Suðurlands og upp í Kjós. Þá er mýið einnig skætt á Þingvöllum, Grafarvogi og í Mosfellsbæ, að sögn Erlings. Hann veit ekki til þess að lúsmý hafi gert sig heimakomið í öðrum landshlutum.Sjá einnig: Lúsmý dreifir sér víðar um landið
En er lúsmýið komið til að vera?
„Já, og eflaust búið að vera lengi. Það er ekki nýtt en fjölgunin er hins vegar ný,“ segir Erling og bendir á að loftslagsbreytingar gætu haft áhrif á þróunina.
„Þetta hefur verið mikið að gerast síðustu árin, tvo síðustu áratugi eða svo. Áhrif hlýnunar loftslags eru að koma fram á ýmsum sviðum og þetta gæti tengst því.“
Þá er vert að rifja upp hvernig halda má lúsmýi í skefjum, sé það að „bögga“ mann, en Erling deildi sjálfur ráði þess efnis á Facebook-síðu sinni, Heimi smádýranna, sumarið 2015.