Margir forstöðumenn bera þar skarðan hlut frá borði og eru ósáttir við niðurstöðuna. Stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) mun funda um afgreiðslu kjararáðs eftir helgi. Formaður félagsins, Gissur Pétursson, segir að ekki hafi allir fengið svar við erindum sínum.
„Það er allt með miklum ólíkindum í kringum þetta sáluga ráð. En ég ætla að í það minnsta þeir sem ekkert svar hafa fengið séu mjög ósáttir. Þessi afgreiðsla er mjög almenn og allur pakkinn tekinn í heilu lagi. Hver og einn forstöðumaður er að leggja fram rök fyrir sínu máli en svo er öllum erindunum safnað saman og svarað á einu bretti. Ég er raunar mest hissa á að þeim hafi verið svarað, ég hafði gefið upp alla von,“ segir Gissur.
Sjá einnig: Segir launahækkanir forstjóra ríkisstofnana ekki koma á óvart
Forstjórar sem Fréttablaðið hefur rætt við segja niðurstöðuna valda vonbrigðum og vera langt undir launaþróun. Mörg erindanna lágu á borði kjararáðs um árabil og langt var síðan margir fengu síðast ákvörðuð laun. Þrátt fyrir það var uppskeran rýr hjá mörgum sem gagnrýna ógagnsæja og ófullnægjandi málsmeðferð ráðsins.
Forstjórarnir telja að í einhverjum tilvikum hafi verið um verðskuldaðar hækkanir að ræða en á öðrum stöðum hafi afgreiðsla málsins verið með ólíkindum. Röksemda að baki erindum hafi í engu verið getið og ekkert tillit tekið til þeirra. Um „málamyndaafgreiðslu“ hafi verið að ræða. Þá hafi hækkanirnar sem fram koma oftar en ekki verið fjarri því að halda í við launaþróun.
„Það er nánast að mann langi til að vera bara starfsmaður á plani hérna fyrir sömu laun og minni ábyrgð,“ segir einn þeirra.
