Lewis Hamilton vann öruggan sigur í ungverska kappakstrinum í Formúlu 1 í dag. Hann er nú kominn með 24 stiga forskot á Sebastian Vettel í stigakeppni ökuþóra.
Hamilton var á ráspól í dag og var í forystunni nær allan tímann. Undir lokin var hann kominn með yfir 20 sekúndna forskot á næstu menn og var sigur hans aldrei í hættu.
Vettel byrjaði fjórði en náði að vinna sig upp í annað sætið. Hann fór fram úr Valtteri Bottas þegar örfáir hringir voru eftir og skaddaðist bíll Bottas aðeins í átökunum en hann gat þó haldið áfram keppni.
Kimi Raikkonen endaði í þriðja sætinu og Daniel Ricciardo á Red Bull í fjórða. Bottas þurfti að sætta sig við fimmta sætið.
Kappaksturinn í Ungverjalandi var sá síðasti fyrir sumarfrí í Formúlunni og virðist Hamilton stefna á að verja titil sinn þegar keppni hefst aftur. Þó er hann með þá tölfræði gegn sér að þau ár sem hann hefur sigrað í Ungverjalandi hefur hann ekki náð að sigra stigakeppnina.
