Skipulagsstofnun hefur ákveðið að bygging kláfs á Skálafelli sæti umhverfismati. Þetta kemur fram í frétt á vef stofnunarinnar.
Fyrirtækið Skálafell Panorama ehf. lagði fram tilkynningu um kláfinn þann 8. mars síðastliðinn. Í gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að fyrirhugaðar framkvæmdir feli í sér uppsetningu kláfs frá núverandi bílastæði við rætur Skálafells og upp á topp fjallsins ásamt þjónustustöðvum við báða enda.
Með hliðsjón af umsögnum Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Veðurstofu Íslands telur Skipulagsstofnun að við fyrirhugaðar framkvæmdir verði eðlisbreyting á þjónustu svæðisins, sem er til að mynda vinsælt skíðasvæði, og ákveðin óvissa sé um umfang framkvæmda og slysahættu. Að mati Skipulagsstofnunar kalla þættir sem falla undir eðli framkvæmdarinnar á að framkvæmdin undirgangist mat á umhverfisáhrifum.
Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum má kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 26. ágúst 2018. Ákvörðun Skipulagsstofnunar má nálgast hér.
Fyrst voru fluttar fréttir af fyrirhuguðum kláfi og þjónustumiðstöðvum í kringum hann í fyrra. „Tilgangur með uppsetningu kláfs á Skálafelli er að gefa fólki tækifæri á að komast upp á tind fjallsins og njóta þess þar hversu víðsýnt er til allra átta,“ sagði þá í erindi frá Mannviti verkfræðistofu vegna verkefnisins, sem skoðaði möguleika á kláfnum fyrir hönd Þórdísar Jóhannesdóttur, eiganda jarðarinnar Stardals.
Kláfur upp á Skálafell fer í umhverfismat

Tengdar fréttir

Veitingar á Skálafelli og kláfur upp á topp
Verkfræðistofan Mannvit fyrir hönd Þórdísar Jóhannesdóttur, eiganda jarðarinnar Stardals, skoðar nú möguleika á því að koma fyrir kláfi á Skálafelli og byggja veitingastað ofan á fjallinu.