„Það er í sjálfu sér ekkert skrítið – þegar heimurinn er farinn að hlýna – að hitabylgjurnar verði verri. Annað væri undarlegt,“ segir Halldór.
Hitabylgjur hafa riðið yfir Evrópu í sumar og valdið miklum skaða víðs vegar um álfuna. Um þessar mundir geisa skógareldar í Svíþjóð og Grikklandi og bændur í Skandinavíu standa frammi fyrir neyðarástandi vegna þessa mikla þurrkatímabils því óheppileg veðurskilyrði hafa orðið þess valdandi að ekki hefur tekist að heyja. Standa margir bændur því frammi fyrir því að þurfa að slátra stórum hluta bústofnsins ef ekkert verður að gert.
Uppskrift að skógareldum
Að sögn Halldórs einkenndust vormánuðirnir í Skandinavíu af miklum hlýindum og þegar yfirborðið þornar vel að vori til aukast líkurnar á hitabylgju til muna í framhaldinu.„Um leið og hlýnar þá gufar upp raki í jarðvegi en ef jarðvegurinn er þurr fyrir þá er auðveldara að viðhalda hitanum og það er það sem hefur verið að gerast í Evrópu,“ segir Halldór sem bætir við að þessi skilyrði séu eins og uppskrift að skógareldum líkt og þeim sem geisa núna í álfunni.
Fyrirstöðuhæðin sem hafi myndast snemmsumars hafi reynst þaulsetin og áhrif hennar margvísleg og mikil.
„Þetta tengist hnattrænum loftslagsbreytingum aðallega á þann hátt að þegar það verða hitabylgjur þá verða þær verri en áður.“
Það sama gildir um fellibyljahrinu síðasta árs sem hafi verið kraftmeiri. Á seinni árum sæki fellibyljirnir aukinn kraft í sjávarhitann.

Halldór segir að það séu vangaveltur uppi á meðal veðurfræðinga hvort hlýnun á norðurslóðum hafi í för með sér að veðurkerfi – líkt og hefur verið við lýði í sumar – verði þaulsetnari. Hann segir að uppi séu ákveðnar hugmyndir að hlýnun á norðurslóðum hægi á allri hringrásinni sem verði til þess að veðurkerfi verði þaulsetnari. Sú fyrirstöðuhæð sem skapar veðurskilyrði í Evrópu hafi til að mynda verið óvenjulangvinn.
„Þetta hefur verið sumarið okkar“
Vindröstin (e. Jet stream) svæði með mjög hröðum vindum hátt uppi stýra nokkuð mikið veðrakerfum að sögn Halldórs. Þegar fyrirstöðuhæð myndast getur vindröstin fests þó það sé algengara að hún sveiflist fram og aftur.Þegar slíkt gerist, eins verið hefur í sumar, gætum við fengið nokkurn veginn sama veðrið mjög lengi.
„Þegar þú ert með suðvestanátt með rigningu í Reykjavík, ertu mjög oft með suðvestanátt, þurrt og sólríkt á Norðausturlandi. Þetta hefur verið sumarið okkar.“
Í kortunum er áframhaldandi hitabylgja í Skandinavíu og það gæti orðið verulega heitt næstu tvo daga þar til loks gæti komið úrkomukafli laugardag og sunnudag.