Ekki er hægt að hlaða bílana heldur er orka sem myndast frá mótornum notuð til að hlaða rafgeymana. Bíllinn skiptir síðan milli raforkunnar og eldsneytisins. Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá því að Toyota hefði að undanförnu birt lítið breyttar auglýsingar fyrir Hybrid-bíla en í þeim var fullyrt að bílarnir væru fimmtíu prósent rafdrifnir. Áður hafði Neytendastofa bannað áþekkar auglýsingar þar sem þær þóttu villandi. Fullyrðinguna mætti skilja með tvennum hætti og í raun útilokað að hinn almenni neytandi myndi átta sig á því að hún ætti eingöngu við aksturstíma.
Sjá einnig: Lítið breytt útgáfa af villandi auglýsingu

Neytendastofa óskaði hins vegar eftir því þann 21. júní að Toyota á Íslandi tæki fram í auglýsingum sínum að framsetningin vísaði til aksturstíma bifreiðanna og að um væri að ræða blandaðan akstur,“ segir í orðsendingu frá Páli Þorsteinssyni, almannatengli Toyota á Íslandi, til Fréttablaðsins. Nýju auglýsingarnar hafa verið birtar undanfarinn mánuð.
Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, sagði í Fréttablaðinu í gær að enn sem komið er hefði stjórnvaldinu ekki borist ábending um nýrri gerðina. Í skeyti Páls segir að fyrirtækið hafi ákveðið að kæra ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndarinnar. Ákvörðunin feli í raun í sér að ríkari kröfur séu gerðar til auglýsinga fyrir Hybrid-bíla heldur en til auglýsinga sem varða bensín-, dísil- eða rafmagnsbíla. „Eftir stendur sú staðreynd óhögguð að Hybrid-bílar frá Toyota aka að meðaltali yfir fimmtíu prósent af tímanum án þess að notast við bensínvélina,“ segir í svari Páls.