Samstarfsaðilar um stórskipahöfn við Langanes áforma nú stofnun tveggja hlutafélaga um verkefnið, eins og fram kom í fréttum í gær. Málið er umdeilt, ekki síður norðaustanlands, og hefur meðal annars orðið til þess að sprengja meirihluta í sveitarstjórn Langanesbyggðar að minnsta kosti einu sinni.

„Ég hef nú svona ekkert verið rosalega spennt fyrir þessu,“ segir Sigríður Ósk Indriðadóttir, sauðfjárbóndi á Miðfjarðarnesi.
„En ég skil svo sem alveg að þetta gæti orðið mikil lyftistöng fyrir svæðið, ef þetta yrði. En kannski ekkert sem mann dreymir um að hafa hérna við hliðina á okkur,“ segir Sigríður Ósk.
Björn Guðmundur Björnsson, verkstjóri Toppfisks á Bakkafirði, situr jafnframt í sveitarstjórn Langanesbyggðar:
„Auðvitað mun þetta klárlega gagnast okkur. Þetta yrði náttúrlega bara kúvending,“ segir Björn.
„Hugsaðu þér bara ef verksmiðjan þessi nýja á Húsavík hefði verið reist á Kópaskeri, - hvað það hefði þýtt fyrir Kópasker og Raufarhöfn. Þetta er bara alger kúvending.“

„Það er allt að fara að gerast með þessum Finnafirði. Ég er ekki að sjá neinn hag fyrir okkur í því, - því miður,“ segir María.
„Við þurfum að finna eitthvað sem gerir okkur ekki háða sjávarútvegi. Við verðum að gera það,“ segir Björn.
„Stórskipahöfn sem er af þessari stærðargráðu er ekkert grín. Þetta er miklu, miklu, miklu stærra heldur en maður getur eiginlega ímyndað sér,“ segir María.
„Ég tala nú ekki um að þá kannski skemmast líka fiskimiðin okkar,“ segir Bylgja Dögg.

„Ég held að það verði ekki neitt úr því,“ segir Krzysztof Krawczyk, sauðfjárbóndi á Miðfjarðarnesi, - að minnsta kosti ekki í þeirra tíð, bætir hann við.
„Ég vona ekki. Því að ég er alveg skíthrædd við hvað við Íslendingar erum duglegir að selja landið okkar,“ segir María.
„Ef þetta fer af stað, í sátt og samlyndi við landeigendur og sveitarfélag, þá verður mikil uppbygging hér. Og af hverju ekki á Bakkafirði?“ spyr Björn Guðmundur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: